Trú sem talar til fólks í dag

Sögulegur viðburður mun eiga sér stað á næsta ári þegar fyrsta höfuðhof Ásatrúarmanna í þúsund ár mun rísa í Öskjuhlíðinni. Framkvæmdir á hofinu hefjast í mars og áætlað er að það verði tilbúið síðla sumars  2016. 

Ásatrúarfélagið sótti upprunalega um að fá að byggja það í Elliðaárdal en þá kom fyrrum borgarstjóri Ingibjörg Sólrun Gísladóttiir með þá hugmynd að Ásatrúarfélagið yrði staðsett í Öskjuhlíðinni til þess að tengja það við Háskólasamfélagið og akademíska vinnu þar.  Að sögn Hilmars Arnar Hilmarssonar allsherjargoða samræmdist það hugsun félaga en varðveiting á íslenskum menningararfi er þeim mjög hugleikin.

Bygging hofsins er alfarið kostuð af Ásatrúarfélaginu sem hefur safnað fyrir byggingu þess í fjölmörg ár. Áætlaður kostnaður er 130 milljónir og hefur félagið enga styrki fengið til byggingarinnar utan þess að fá lóðinni í Öskjuhlíð úthlutað frá Reykjavíkurborg. 

Hönnun hofsins notast við heilög hlutföll og gullinsnið

Hofið verður staðsett í falllegum trjálundi í námunda við Hangaklett og Hrafnabjörg og það er hannað af Magnúsi Jenssyni arkitekt.  Byggingin er byggð i kringum  sólarganginn, og þar koma inn tölurnar 9 og 432,000 en sú tala er heilög í Ásatrú og einnig í Hindúatrú en Hlmar Örn segir þessi tvö trúarbrögð náskyld. Einnig er notast við heilög hlutföll og gullinsnið, hlutföll sem eru oftast notuð í byggingu heilagra bygginga í heiminum.

Hofið sjálft verður hvelfing, að hluta niðurgrafin, um 350 fermetrar og mun rúma um 250 manns. Eldur mun loga glatt Í hvelfingunni og hljómburður þar verður góður fyrir tónleikahald.

Ásatrú byggir á táknfræði

Blót og ýmsar helgiathafnar eins og hjónavígslur, nafngiftir og jarðarfarir munu fara fram í hofinu sem mun skipta sköpum fyrir félaga Ásatrúarfélagsins en hingað til hefur starfsemin verið hýst í Síðumúla. Um 2,400 meðlimir eru í Ásatrúarfélaginu en áhugi fyrir starfsemi þess hefur aukist á undanförnum árum.

Hilmar Örn segir Ásatrú vera umburðarlynda trú sem byggir á táknfræði og tali jafnmikið til fólks í dag og hún gerði fyrir þúsund árum. Helstu gildi Ásatrúarinnar eins og hún er iðkuð í dag eru ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér, á orðum sínum og gjörðum. Heiðarleiki, drengskapur og virðing fyrir jörðinni og náttúrunni eru einnig mikilvægir þættir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka