Allir þeir sem hafa farið inn á Facebook eftir 1. janúar hafa veitt fyrirtækinu leyfi til að safna upplýsingum af öllum tækjum sem notuð eru til að fara inn á samskiptamiðilinn. Ekkert verndar fólk fyrir því að löggæsluaðilar fái aðgang að þeim gögnum, að sögn ráðgjafa hjá Deloitte.
Nýir notendaskilmálar tóku gildi á Facebook 1. janúar og fjallaði Ævar Einarsson, liðsstjóri upplýsingatækniráðgjafar Deloitte, um þá á málþingi Persónuverndar um rafrænt eftirlit í dag. Þeir veita bandaríska fyrirtækinu víðtækar heimildir til þess að safna upplýsingum um notandann sem hann hefur enga stjórn yfir, án þess hreinlega að hætta að nota miðilinn.
Ævar benti á að áætlað væri að 70% af öllum nettengdum fullorðnum einstaklingum í heiminum séu með Facebook-aðgang. Fyrirtækið sitji þannig á miklum upplýsingum um heiminn. Þær upplýsingar skiptist í tvo flokka, annars vegar þær sem fólk setji sjálfviljugt inn, myndir, stöðuuppfærslur og ummæli, og hins vegar fullt af upplýsingum sem skapast við notkunina. Þar á meðal eru upplýsingar um staðsetningu notandans og IP-tölu.
Ákvæði nýju notendaskilmálanna gera Facebook nú kleift að safna alls kyns upplýsingum af símum, spjaldtölvum og jafnvel vinnutölvum fólks. Ekki þurfti að samþykkja skilmálana sérstaklega heldur töldust þeir samþykktir um leið og fólk fór inn á Facebook eftir 1. janúar. Ævar sagði að á meðal þessara upplýsinga væru öll SMS, símtöl, tölvupósta, á hvaða vefsíður notandinn hefur farið og hvaða netum hann hefur tengst.
Hið jákvæða væri að Facebook-notendur hefðu nú meiri stjórn á því efni sem þeir veldu sjálfir að setja inn og hverjir gætu séð það. Hið slæma væri hins vegar að hann hefði enga stjórn á þessari sjálfvirku upplýsingaöflun Facebook. Ástæðan sem fyrirtækið gefi upp sé sú að upplýsingarnar séu aðeins notaðar til þess að gera auglýsingar markvissari og einstaklingsmiðaðar.
Ævar sagði að þrátt fyrir þessa réttlætingu Facebook þá væri þarna komið bandarískt fyrirtæki sem sæti á því sem væri í raun kort af öllu sem fólk gerði á netinu. Hvaða stjórnmálaskoðanir fólk hefði, neysluvenjur þess og fleira. Benti hann á að Google hefði orðið uppvíst að því að afhenda gögn í tengslum við Wikileaks að ósk bandarískra löggæsluaðila.
„Það er ekkert sem tryggir okkur gegn því að það sama gerist ekki með allar þessar upplýsingar sem nú liggja á Facebook,“ sagði Ævar sem benti jafnframt á að engin eftirlitsstofnun í Bandaríkjunum fylgdist með þessari upplýsingaöflun Facebook.
Hún standist alveg áreiðanlega ekki íslensk lög en hins vegar hefðu íslensk yfirvöld enga lögsögu yfir bandaríska fyrirtækinu. Þá dró hann í efa að það teldist upplýst samþykki samkvæmt íslenskum lögum að nóg væri fyrir notandann að fara inn á Facebook til að hann teldist hafa samþykkt nýju skilmálana.