Hamingjuóskir og útrásarvíkingar

mbl.is/Ómar

„Ég ætla að óska okkur öllum til hamingju með daginn,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag, en hún minntist þess að tvö ár séu nú liðin frá því Ísland  vann „fullnaðarsigur yfir Bretum og Hollendingum og ESB“ í Icesave-málinu. 

Aðrir þingmenn Framsóknarflokksins tóku í sama streng og óskuðu þjóðinni einnig til hamingju með daginn.

„Ég ætla að óska okkur öllum til hamingju með daginn, því í dag er 28. janúar. Í dag er sá dagur upp á dag að það eru tvö ár síðan við Íslendingar unnum mál fyrir alþjóðlegum dómstóli, EFTA-dómstólnum, og unnum þar með fullnaðarsigur yfir Bretum og Hollendingum og ESB, sem stefndi sér inn í málið í Icesave-málinu. Ég þakka landsmönnum fyrir kjarkinn að standa með okkur Framsóknarmönnum í gegnum tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og þora að fylgja sannfæringu sinni í skugga svæsinna hótana, bölbæna og niðurrifs sem stjórnað var af þáverandi ráðherrum, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur,“ sagði Vigdís á Alþingi í dag.

Hún ræddi í kjölfarið um „einkavæðingu Steingríms J. Sigfússonar“ þegar hann var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili. 

Óinnleystur lottóvinningur

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng og Vigdís og óskaði landsmönnum til hamingju. Hún spurði í framhaldinu Guðmund Steingrímsson, þingmann Bjartrar framtíðar, hvort hann væri sammála því að það væri jákvætt að þeir atburðir væru rannsakaðir betur í því skyni að öll gögn og atburðarás kæmi fram. „Er háttvirtur þingmaður þeirrar skoðunar að slík rannsókn geti varpað ljósi á málið og eytt tortryggni gagnvart því ferli sem þar átti sér stað,“ spurði hún.

Guðmundur sagði, að það hefði verið skynsamlega staðið að endurreisn fjármálakerfisins og í raun ótrúlegt að það hefði tekist.

„Ég geld varhug við því, þeim sjónarmiðum sem gætir í umræðunni, að þetta ógnarmikla hrun fjármálakerfisins hafi og er og sé á einhvern hátt óinnleystur lottóvinningur fyrir Íslendinga. Að Íslendingar geti með því að vera miklir spaðar vaðið ínn í þetta ferli og grætt mörg hundruð milljarða,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, 

Þá var kallað úr sal að þetta minnti á útrásarvíkinga.

„Já, þetta er svolítið sú hugsun. Útrásarvíkingahugsunin. Mér finnst hennar gæta hjá mörgum þingmönnum hérna stundum. Og mér finnst hún ekki rétt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert