Nammið breyttist í lauk

Rýrnun í verslunum kostar milljarða á ári. Reynt er að …
Rýrnun í verslunum kostar milljarða á ári. Reynt er að stemma stigu við henni, meðal annars með öryggismyndavélum. mbl.is/Arnaldur

Stór hluti af rýrnun vara í verslunum er af völdum starfsmanna, meðal annars þegar þeir skjóta vörum undan til vina eða ættingja. Dæmi er um að starfsmenn hafi stimplað nammi úr nammibar sem lauk til að lækka verðið. Þetta var á meðal þess sem kom fram á málþingi um rafrænt eftirlit á vegum Persónuverndar í dag í tilefni af evrópska persónuverndardeginum.

Lárus Ólafsson, lögmaður Samtaka verslunar og þjónustu, ræddi um rafrænt eftirlit í verslunum á Íslandi. Hann sagði rafræna vöktun ekki vera það ástand sem verslunin óskaði sér en nauðsyn hennar væri þó sá veruleiki sem hún býr við.

Rannsóknir hefðu sýnt að rýrnun í verslunum á árunum 2013-2014 hafi verið 1,29%. Samtals þýddi þetta 129 milljarða dollara tap fyrir verslun á heimsvísu. Á Íslandi hafi verið áætlað að um fimm milljarðar króna tapist á hverju ári vegna rýrnunar. Við þá upphæð bætist sá kostnaður sem verslanir hafa af því að setja um eftirlitsbúnað, öryggiskerfi og rekstur þeirra. Áætlað sé að 1,5 milljarð króna kosti á ári að reka þau kerfi á Íslandi.

Sameiginlegt hagsmunamál verslunar, neytenda og starfsfólks

Orsakir rýrnunarinnar geti verið margar, þar á meðal ósamræmi í vörumerkingum og annað. Þjófnaður starfsmanna og utanaðkomandi og atvik sem rekja má til starfsmanna séu hins vegar talin standa fyrir 67% rýrnunarinnar. Vísbendingar séu um að hér á landi sé það hlutur starfsmanna sem vegi mest í rýrnun. Hún kosti neytendur um 11.000 krónur á ári í hærra vöruverði.

Sem dæmi nefndi hann að í verslun einni hér á landi hafi komið í ljós að mikið magn af lauki hafði selst en þrátt fyrir það væri alltaf til nóg af honum í búðinni. Þegar upptökur úr myndavélum voru skoðaðar kom í ljós að „laukurinn“ var í raun nammi af nammibarnum. Starfsfólk hafði þá vigtað nammi sem vinir eða ættingjar komu með á kassann en stimplað út sem lauk þar sem kílóverð hans var mun lægra en sælgætisins.

Því sagði Lárus það sameiginlegt hagsmunamál verslunarinnar, almennings og starfsmanna að komið væri í veg fyrir rýrnunina. Rafræn vöktun myndi aldrei koma alfarið í veg fyrir rýrnun. Hins vegar gæti samspil vöktunar og fræðslu dregið úr henni. Sem betur fer væri aðeins lítill hluti starfsfólks óheiðarlegur en því miður væri rafræn vöktun ein af þeim leiðum sem menn hefðu nú til að bregðast við vandanum.

Setti upp myndavél með hljóðnema á kaffistofu starfsfólks

Bryndís Guðnadóttir, sérfræðingur á kjaramálasviði VR, ræddi í kjölfarið um kvartanir sem starfsmenn bæru fram vegna rafræns eftirlits á vinnustöðum. Þó nokkuð af slíkum ábendingum bærust til félagsins. Félagsmenn hefðu stundum ótrúlegar sögur að segja af átökum við samstarfsmenn, yfirmenn og vinnuveitendur.

Þannig hafi stúlka sett sig í samband við VR en á hennar vinnustað höfðu verið settar upp eftirlitsmyndavélar með hljóðnemum, þar á meðal í kaffistofu starfsmanna. Starfsfólkið hafi ekki vitað af hljóðnemanum fyrr en yfirmaður þess hafði skyndilega vissu um allt það sem það hafði rætt í kaffitímanum.

Annar félagsmaður hafði lent í því að vinnuveitandi sinn, sem staðsettur var erlendis, hafi fjarstýrt sér algerlega með því að fylgjast með honum í gegnum eftirlitsmyndavél. Bryndís sagði að þetta væri dæmi um hvað væri ekki ætlast til að rafrænt eftirlit væri notað í.

Þá nefndi hún að fyrirtæki hafi einnig komið fyrir myndavélum og GPS-tækjum í vinnubifreiðum þar sem hægt væri að fylgjast með ferðum starfsfólks, hvar það stoppaði og hversu lengi. Málefnaleg rök gætu verið fyrir því. Hins vegar vitnaði hún til tilviks þar sem starfsmanni fyrirtækis var fyrirvaralaust sagt upp störfum eftir að yfirmaður hans hafði farið yfir nokkurra vikna gamlar GPS-upptökur og komist að því að hann hafði ekið yfir hámarkshraða. Þetta væri dæmi um að menn notuðu rafrænt eftirlit til að finna átyllur til að segja fólki upp. Það væri ekki tilgangur slíks eftirlits.

Skjáskot úr myndskeiði öryggismyndavélar verslunar af konu að stela fötum.
Skjáskot úr myndskeiði öryggismyndavélar verslunar af konu að stela fötum. Skjáskot/Youtube
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert