Túlki Biblíuna ekki bókstaflega

Þjóðkirkj­an les ekki Bibl­í­una eða játn­ing­ar sín­ar bók­staf­lega og því get­ur krossa­próf sem bygg­ist á bók­stafstrú ekki end­ur­speglað hana, að sögn Árna Svans Daní­els­son­ar, prests í Bú­staðar­kirkju. Hann ger­ir at­huga­semd við krossa­próf Van­trú­ar sem hann seg­ir fyrst og fremst próf í Van­trú­ar­kristni.

Fé­lagið Van­trú, sem hef­ur það mark­mið að veita boðun hind­ur­vitna mót­vægi, birti á vefsíðu sinni það sem það nefndi krossa­próf til að mæla trú. Þar var sagt að prófið hefði verið unnið í sam­starfi við Guðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands og kenn­ing­ar­nefnd þjóðkirkj­unn­ar.

„Guðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands er ekki til. Ég veit ekki hvort að Van­trú­ar­menn eru að reyna að vera fyndn­ir og upp­nefna Guðfræðistofn­un eða guðfræði- og trú­ar­bragðafræðideild Há­skóla Íslands en ég held að það segi svo sem mest um þá sjálfa,“ seg­ir Árni Svan­ur.

Kenn­ing­ar­nefnd þjóðkirkj­unn­ar er til en hún hef­ur ekki átt í neinu sam­starfi við Van­trú um svona próf.

„Kjarni máls­ins er kannski sá að þjóðkirkj­an túlk­ar Bibl­í­una og játn­ing­arn­ar ekki bók­staf­lega held­ur skoðar þessa texta alltaf í sögu­legu sam­hengi. Ein­hvers kon­ar próf sem bygg­ist á bók­stafstrú á Bibl­í­una eða játn­ing­ar kirkj­unn­ar get­ur þannig aldrei end­ur­speglað þjóðkirkj­una. Það seg­ir hins veg­ar heil­mikið um hvernig Van­trú­ar­menn lesa Bibl­í­una og sjá þjóðkirkj­una. Ég held þess vegna að þetta sé fyrst og fremst próf í Van­trú­ar­kristni en ekki þjóðkirkjukristni,“ seg­ir Árni Svan­ur.

Ekki hægt að mæla trú fólks

Þá bend­ir hann á að ekki sé hægt að mæla trú með krossa­prófi. Það sjá­ist á því hvernig mann­eskja kem­ur fram við annað fólk og hvernig hún lif­ir líf­inu.

„Það er grund­vall­ar­boðskap­ur­inn sem við sjá­um í Biblí­unni. Trú er ekki þekk­ing­ar­atriði. Hún snýst um að treysta guði og þjóna ná­ung­an­um. Þetta er svo­lítið eins og ást­in í hjóna­bandi. Hún snýst ekki um hversu marg­ar staðreynd­ir þú get­ur þulið upp um mak­ann þinn held­ur hvernig þú mæt­ir hon­um, hvernig þú hugs­ar til hans og sýn­ir hon­um ást í verki á hverj­um degi,“ seg­ir Árni Svan­ur sem veit ekki til þess að slíkt próf hafi verið gert um trú fólks.

Auðvitað sé hægt að kanna þekk­ingu fólks á krist­inni guðfræði og kirkju­sögu en Árni Svan­ur seg­ir að fólki sé ekki raðað upp á skala eft­ir því hversu kristið það er á grund­velli slíkr­ar þekk­ing­ar.

Fyrri frétt mbl.is: Krossa­próf til að mæla trú

Árni Svanur Daníelsson, prestur í Bústaðarkirkju.
Árni Svan­ur Daní­els­son, prest­ur í Bú­staðar­kirkju. Guðmund­ur Rún­ar Guðmunds­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka