Ríkisskattstjóri hefur lagt til við fjármálaráðuneytið að notkun skattkorta verði hætt um næstu áramót. Tilgangurinn er að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra að auka hagkvæmni framkvæmdarinnar og spara notendum skattkorta umstang og fyrirhöfn og launagreiðendum óþarfa utanumhald.
Skúli Eggert segir að með aukinni tölvuvæðingu og sjálfvirkara upplýsingaflæði milli tölvukerfa séu skattkortin í raun orðin óþörf. Um nokkurt skeið hafi verið leitað leiða til að einfalda skattkortakerfið sem notað hefur verið frá því staðgreiðslan var tekin upp í ársbyrjun 1988. Tillögur embættisins að nýju fyrirkomulagi munu gera skattkortin óþörf. Skúli Eggert telur að breyta þurfi lögum um staðgreiðslu til þess að hægt sé að hrinda þeim í framkvæmd og er málið til athugunar í fjármálaráðuneytinu. Vonast er til að frumvarp sem heimilar breytinguna verði lagt fram innan tíðar, væntanlega á komandi haustþingi.
Meginbreyting felst í því að launamaður þarf ekki lengur skattkort til að sýna launagreiðanda fram á hversu mikinn persónuafslátt hann á eftir. Hann þarf því ekki að sækja skattkortið og fara með til nýs launagreiðanda þegar hann skiptir um vinnu. Sömuleiðis sparast vinna hjá launagreiðendum við að passa upp á skattkortin.
Í staðinn er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri uppfæri stöðugt stöðu persónuafsláttar allra launamanna. Slíku eftirliti er nú þegar sinnt en það þarf að efla, að sögn Skúla Eggerts. Launagreiðendur eiga að geta fengið upplýsingar um stöðu persónuafsláttar rafrænt hjá ríkisskattsstjóra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Launamaður á sömuleiðis að geta séð stöðuna jafnóðum á þjónustusíðu sinni hjá skattinum og um leið heildarlaun það sem af er ári.
Ríkisskattstjóri hefur kynnt tillögur sínar fyrir stofnunum sem mikið sýsla með skattkort, svo sem Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun, og einnig stórum launagreiðendum. Breytingin mun engin áhrif hafa á fólk sem lengi starfar hjá sama vinnuveitenda en hjálpar þeim sem skiptir oft um launagreiðanda, til dæmis á milli vinnu og bóta og fæðingarorlofs.