„Það væri óskandi að ríkiskirkjan færi að uppfæra játningarnar í staðinn fyrir að saka aðra um „bókstafstrú á Biblíuna eða játningar kirkjunnar“ þegar það er vitnað í þær. Þá kannski gæti maður komist að því hverju þessi ríkisstofnun trúir eiginlega,“ segir Hjalti Rúnar Ómarsson, ritstjóri Vantrú.is.
Hjalti Rúnar sendi mbl.is tölvubréf vegna athugasemdar Árna Svans Daníelssonar, prests í Bústaðakirkju, við krossapróf Vantrúar.
Frétt mbl.is: Prófið sé í Vantrúarkristni
Um er að ræða fimmtán spurninga krossapróf þar sem vitnað er til játninga Þjóðkirkjunnar. Árni Svanur sagði eftirfarandi um prófið í dag: „Kjarni málsins er kannski sá að þjóðkirkjan túlkar Biblíuna og játningarnar ekki bókstaflega heldur skoðar þessa texta alltaf í sögulegu samhengi. Einhvers konar próf sem byggist á bókstafstrú á Biblíuna eða játningar kirkjunnar getur þannig aldrei endurspeglað þjóðkirkjuna.“
Hjalti Rúnar segist taka undir með Árna Svan um að játningarnar beri að lesa í sögulegu samhengi. „Þær voru skrifaðar af mönnum sem trúðu öllu ruglinu sem fram kemur í játningunum. Það er sögulega samhengið. Að reyna að burtskýra ruglið í þeim með vísun til „sögulegs samhengis“ er lélegt trikk.“
Hann segir að það væri óskandi að „ríkiskirkjan“ uppfæri játningarnar í stað þess að saka aðra um bókstafstrú á Biblíuna. „Við í Vantrú vitum vel að prestar kirkjunnar trúa ekki játningunum sjálfir. Það verður samt að teljast undarlegt að prestur fari á hverjum einasta sunnudegi með postullegu trúarjátninguna þar sem talað er um almáttugan skapara, meyfæðinguna, endurkomu Jesú og upprisu mannkyns við hana, ef þeir trúa þessu svo ekki.“