Allir geta tekið afstöðu til líffæragjafar

70% af þeim sem hafa tekið afstöðu eru á aldrinum …
70% af þeim sem hafa tekið afstöðu eru á aldrinum 18-40 ára. mbl.is/skjáskot

Á þriðjudaginn höfðu 15.500 manns skráð sig í líffæragjafargrunn Landlæknisembættisins. Þeim sem hafa tekið afstöðu til líffæragjafar með þeim hætti hefur fjölgað gríðarlega á skömmum tíma, en 12. janúar sl. höfðu 8.500 skráð sig í grunninn.

Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá embættinu, segir greinilegt að umfjöllun fjölmiðla og umræða á samfélagsmiðlum hafi mikil áhrif á skráningar í grunninn, en á heimasíðu landlæknis er bæði hægt að segja já og nei við líffæragjöf. Þá er einnig hægt að samþykkja líffæragjöf, en tiltaka líffæri sem viðkomandi vill ekki gefa.

Opnað var fyrir skráningar 24. október sl. Um 70% þeirra sem hafa skráð sig eru konur, en Jórlaug segist telja að það megi að einhverju marki rekja til þess að konur heimsæki frekar heilsutengdar vefsíður en karlar, og séu virkari á samfélagsmiðlum. Hún segir að óformlegar athuganir hafi leitt í ljós að ekki sé teljandi munur milli kynjana þegar kemur að afstöðu til líffæragjafar.

Ekki hægt að skrá börn í grunninn

Innan við 1% þeirra sem hafa tekið afstöðu hafa hafnað líffæragjöf. „Þetta segir okkur kannski að þeir sem eru búnir að taka þá afstöðu að þeir ætli að gefa líffæri sín við andlát, ef líffæragjöf kemur til greina; þeir fara frekar inn og taka afstöðu,“ segir Jórlaug.

Hún segir hins vegar að hvatt sé til þess að allir taki afstöðu, hvort sem það er já eða nei, til að ákvörðunin lendi ekki á herðum ástvina við andlát.

Allir sem eru orðnir 18 ára geta tekið afstöðu til líffæragjafar á vefsíðu Landlæknisembættisins. Jórlaug segir hvorki aldur né heilsufar skipta þar máli; komi líffæragjöf til greina séu framkvæmdar rannsóknir til að skera úr um hvort líffæragjöf er möguleg og hvaða líffæri við komandi getur gefið.

Jórlaug segir að við smíði grunnsins hafi sú umræða verið tekin hvort gera ætti foreldrum kleyft að skrá börn sín, en það sé m.a. þeim vandkvæðum háð að börnin þyrftu þá að fara aftur inn við 18 ára aldur og staðfesta eða endurskoða skráða afstöðu. Því eru einstaklingar yngri en 18 ára ekki í grunninum, en komi líffæragjöf til greina í tilviki barns sem hefur ekki náð lögaldri, er það undir foreldrum komið að taka afstöðu.

„Ég hef fengið fyrirspurnir um þetta, en foreldrar eru hvort eð er alltaf spurðir, þeir eru forráðamenn barnanna,“ segir Jórlaug. Hún hvetur fólk hins vegar til að ræða líffæragjöf við unglinga og segir mikilvægt að fræða fólk og upplýsa um málefnið.

„Það er mjög mikilvægt að ræða þetta í framhaldsskólum, háskólum og á vinnustöðum,“ segir Jórlaug, en hún hefur fengið fjölda spurninga er varða líffæragjöf, t.d. hvernig úrskurðað er um heiladauða og hvort fólk með sjúkdóma geti gefið líffæri.

Stór ákvörðun fyrir marga

Hvorki lög né reglugerðir kveða á um að skráð afstaða í grunninum sé bindandi fyrir aðstandendur eða heilbrigðisstarfsmenn, en Jórlaug hefur það eftir læknum á Landspítalanum að aldrei hafi komið til þess að fjölskylda hafi farið gegn vilja ástvinar.

Jórlaug segir ennþá mögulegt að koma vilja sínum á framfæri með líffæragjafakorti. Þá hvetur hún fólk til þess að ræða málin við nákomna.

„Við í sjálfu sér hvetjum fólk til að taka þetta samtal. En fólk er mismunandi og sumum finnst erfitt að ræða þetta. Sumir taka ákvörðun einir með sjálfum sér, aðrir vilja tala um þetta. Þannig að það verður kannski svolítið hver að finna það hjá sér hveernig hann gerir þetta,“ segir hún.

Hún segir að því opnari sem umræðan verður, því auðveldara verði fyrir fólk að tala um líffæragjöf. Jórlaug segir þó ljóst að í mörgum tilfellum sé um stóra ákvörðun að ræða. „Ég fæ fullt af kommentum frá fólki sem segir: „Ég ætla að taka afstöðu, en ég fæ mig ekki til að fara inn og taka afstöðu“,“ segir hún. „Það er greinilegt að fyrir suma þá er þetta skref.“

Hægt er að taka afstöðu til líffæragjafar á heimasíðu Landlæknisembættisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert