Pawel hættir skrifum í Fréttablaðið

Pawel Bartoszek.
Pawel Bartoszek.

Pistlahöfundurinn vinsæli Pawel Bartoszek hefur ákveðið að taka sér frí frá pistlaskrifum í Fréttablaðið. Pawel lýsir þessu yfir á Facebooksíðu sinni í dag, þar sem hann þakkar góðar viðtöku, en lýsir jafnframt undarlegum samskiptum við lesanda, sem hélt að hann kynni ekki íslensku.

Þetta hefur verið alveg ótrúlega mikil upphefð og þetta hefði líklegast ekki verið mögulegt ef ég hefði ekki fengið tækifæri til að skrifa á Deigluna. En svona getur lífið verið verðlaunandi, ef maður er nógu heppinn. Á 12 árum fór ég frá því að skrifa lítilsháttar blogg í eigin nafni og yfir í það hoppa í skarðið fyrir fyrrum forsætisráðherra,“ skrifar Pawel á Facebook.

Hann lýsir einnig undarlegum samskiptum sínum við lesanda:

„Skömmu eftir að ég hóf að skrifa í Fréttablaðið hitti ég mann í strætó. Hann hafði hafið föstudaginn snemma þennan daginn og var glaður að hitta mig.

"You are Pawel Bartoszek, the mathematician! You write for Fréttablaðið?"

"Yes, I ... þú veist að ég kann íslensku."

Þetta opnaði nýjan heim fyrir þessum vinalega manni sem hafði gert ráð fyrir að ég sendi Fréttablaðinu greinar á ensku og léti starfsmenn blaðsins snara þeim í snatri yfir í íslensku. Í hverri viku.

Þótt ég geri ekki ráð fyrir að margir lesendur blaðsins séu haldnir svipuðum hugmyndum um tilurð pistla minna þá er samt rétt að taka fram að ég er afar þakklátur starfsfólki Fréttablaðsins fyrir samstarfið á liðnum árum og þá sérstaklega þeim sem sáu til þess að greinarnar færu ekki í prentun morandi í málfræði- og innsláttarvillum. Þessum þöglu hetjum þakka ég sérstaklega fyrir þeirra vanþakkláta starf.

Við þá og alla aðra segi ég: Takk fyrir mig.“ 

Höfuðstöðvar Fréttablaðsins.
Höfuðstöðvar Fréttablaðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert