Ráðherra afvegaleiði umboðsmann

Fiskistofa er til húsa að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði.
Fiskistofa er til húsa að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra, um að færa Fiskistofu til Akureyrar breyttist í „áform“ í bréfi hans til umboðsmanns Alþingis vegna málsins. Starfsmenn Fiskistofu telja þetta tilraun ráðuneytisins til þess að afvegaleiða umboðsmann í athugasemdum sínum við svarbréf þess.

Umboðsmaður Alþingis sendi sjávarútvegsráðherra bréf í nóvember þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvöllur fyrirhugaður flutningur Fiskistofu til Akureyrar væri byggður. Flutningurinn var kynntur starfsfólki síðasta sumar. Svaraði sjávarútvegsráðuneytið spurningum umboðsmanns 12. desember.

Í bréfi ráðuneytisins er því meðal annars haldið fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um flutning höfuðstöðva stofnunarinnar til Akureyrar og ráðherrann hafi kynnt starfsfólki „áform“ um að flytja þær. Við þetta gerir starfsfólkið athugasemd.

„Þessi ákvörðun sem okkur var tilkynnt, fyrst á fundi og síðan skriflega með bréfi til hvers og eins starfsmanns, er nú orðin áform. Við teljum að ráðuneytið sé að reyna að afvegaleiða umboðsmann með þessum málatilbúnaði,“ segir Guðmundur Jóhannesson, deildarstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu.

Fjöldi gagna, bæði frá ráðherra og stafsmönnum ráðuneytisins sýni fram á þetta, bæði það sem þeir sögðu á fundum með starfsfólki Fiskistofu og í opinberum yfirlýsingum í fjölmiðlum.

Sleppti formála bréfs síns til starfsmanna í svari til umboðsmanns

Til dæmis um þetta nefna starfsmennirnir í athugasemdum sínum til umboðsmanns að í svari ráðuneytisins sé bréf ráðherra til starfsmanna Fiskistofu birt í heild sinni fyrir utan formála þess en þar segir: „Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 2 þ.m. kynnti ég aðgerðir sem ég er tilbúinn að beita mér fyrir og snúa að starfsmönnum Fiskistofu í tengslum við þá stefnumarkandi ákvörðun sem tekin var í sumar  um að flytja höfuðstöðvar stofnunarinnar til Akureyrar.“

Guðmundur segir að þegar ráðherra kom og kynnti starfsmönnum ákvörðunina um flutninginn þá hafi hann verið spurður út í lagastoð hennar. Ráðherrann sagðist telja hana vera fyrir hendi en nokkrum vikum síðar hafi komið í ljós að breyta þyrfti lögum til þess að hægt væri að flytja stofnunina. Nú haldi hann því fram að ekki hafi verið um ákvörðun að ræða heldur áform.

„Núna er hann að segja að þetta sé ekki ákvörðun og það þurfti ekki lagastöð því þetta eru bara áform. Það er í rauninni það sem kristallast í þessu svari ráðherra,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert