Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að Íslendingar standi frammi fyrir mikilli og alvarlegri ólgu á vinnumarkaði. Horfur séu á að komandi kjaraviðræðum geti fylgt mestu átök frá níunda áratugnum. Hann segir nauðsynlegt að breyta svokölluðu vinnumarkaðslíkani.
Í leiðara fréttabréfs SA segir Þorsteinn að við gerð síðustu kjarasamninga hafi verið lögð áhersla á launahækkanir sem samrýmdust lágri verðbólgu. Markmiðið hafi verið raunveruleg kaupmáttaraukning í stað lofts í launaumslögin eins og oft hafi verið samið um. „Árangurinn lét ekki á sér standa. Verðbólga gekk hratt niður á síðasta ári og þegar upp var staðið hafði 12 mánaða verðbólga farið úr 4,3% í 0,8%. Kaupmáttur jókst um liðlega 5% á árinu og vextir Seðlabanka lækkuðu um 0,75%. Niðurstaðan er betri en nokkurn óraði fyrir.“
Þrátt fyrir það sé þessi mikla og alvarlega ógn yfirvofandi á vinnumarkaði. Ef gengið yrði að kröfum stéttarfélaga þyrfti að fella gengi krónunnar til að koma í veg fyrir gjaldþrot útflutningsatvinnuvega. Aðrar atvinnugreinar, ásamt ríki og sveitarfélögum, yrðu að mæta útgjaldaaukningunni með verulegum verð-, gjaldskrár- og skattahækkunum. Verðbólgudraugurinn yrði endurvakinn.
Þorsteinn segir að launaþróun á opinberum vinnumarkaði og í samskipti stjórnvalda við aðila vinnumarkaðar sé skýring þessa. „Ríki og sveitarfélög sömdu um mun meiri launahækkanir fyrir hluta sinna starfsmanna á síðasta ári en samið var um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og kjarasamningum við stóra hópa opinberra starfsmanna, svo sem félagsmenn BSRB. Þegar annars vegar er samið um 3-5% launahækkanir á almennum vinnumarkaði og hluta þess opinbera, en hins vegar 10-30% launahækkanir við háskólamenntaða starfsmenn hins opinbera, grunn- og framhaldsskólakennara og nú síðast lækna, myndast mikið ójafnvægi á vinnumarkaði.“
Ríki og sveitarfélög hafi því mótað nýja launastefnu sem stefni friði á vinnumarkaði í voða. Ríkisstjórnin hafi horfið alveg frá hefðbundnu þríhliða samstarfi við aðila vinnumarkaðarins sem lagði grunninn að þjóðarsáttinni á sínum tíma. Þetta geri úrlausn komandi kjaradeilna erfiðari viðfangs.
„Það er hvergi þekkt að ríki og sveitarfélög leiði í kjarasamningum þróunina á vinnumarkaði. Þetta er sérstaða íslensks vinnumarkaðar og sýnir nauðsyn þess að breyta svokölluðu vinnumarkaðslíkani þannig að það sé geta fyrirtækjanna, framleiðni þeirra og hagur útflutningsgreinanna sem móti svigrúm til launabreytinga hverju sinni,“ segir Þorsteinn.