Vegið stórlega að almannarétti um frjálsa för fólks um landið

Landvernd, Ferðafélag Íslands, Ferðaklúbburinn 4x4, Samtök útivistarfélaga (SAMÚT) og Útivist telja að náttúrupassi og gjald inn á einstaka staði vegi stórlega að almannarétti um frjálsa för fólks um óræktað land og leggjast gegn áformum sem stangast á við þennan mikilvæga rétt fólks til að njóta landsins. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum sem hefur verið afhent iðnaðar- og viðskiptaráðerra, sem mun í dag mæla fyrir frumvarpi um náttúrupassa á Alþingi.

Þar segir, að samtökin taki undir að víða þurfi að efla innviði og þjónustu til að forða ferðamannastöðum og náttúruperlum frá skemmdum og ágangi. Í þeim tilgangi sé ásættanlegt að innheimta gjald af ferðamönnum sem renni til uppbyggingar og reksturs á slíkum stöðum, þ.m.t. til fræðslu, landvörslu og öryggismála. Athuga beri þó að bætt aðgengi og uppbygging á ekki við á öllum stöðum og gildi það sérstaklega þar sem auknir innviðir myndu skerða víðerni, ásýnd náttúrulegra svæða, eða upplifun ferðamanna af lítt snortinni og ómanngerðri náttúru.

„Samtökin telja að náttúrupassi og gjald inn á einstaka staði vegi stórlega að almannarétti um frjálsa för fólks um óræktað land og leggjast gegn áformum sem stangast á við þennan mikilvæga rétt fólks til að njóta landsins.

Samtökin telja að fara beri leiðir sem ekki brjóta á almannaréttinum, t.d. blandaða leið hóflegs komu- eða brottfarargjalds og breytinga á gistináttagjaldi og/eða virðisaukaskatti. Það er skýr krafa samtakanna að ríkisstjórnin falli frá tillögu um náttúrupassa sem ráðherra ferðamála mælir fyrir á Alþingi í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert