„Þær eru margvíslegar aðstæðurnar sem fólk kemur sér í,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Þannig hafi lögreglunni borist í nótt aðstoðarbeiðni frá manni á þrítugsaldri sem hafi setið fastur í bíl sínum á fjallvegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
„Maðurinn sagðist vita upp á sig skömmina, hann hafi ekið framhjá lokunarskiltum en mál æxlast þannig að hann hafi fest jepplinginn sinn og væri nú strandaglópur. Maðurinn var spurður hvort að hann hafi reynt að fá aðstoð vina eða fjölskyldu, en sá fasti kvaðst ekki hafa viljað vekja það fólk um miðja nótt en vildi óska eftir aðstoð björgunarsveita. Lét maðurinn fylgja með að hann greiddi sína skatta og ætti því rétt á aðstoð,“ segir í færslunni.
Björgunarsveit hafi verið send á vettvang en þegar komið hafi verið til mannsins hafi komið á daginn að hann var klæddur í lakkskó og leðurjakka í sjö stiga frosti. „Nægt eldsneyti var þó á bifreiðinni og hún heit og notaleg. Ekki tók þó betra við þar sem að maðurinn reyndist mjög ósáttur við björgunarsveitamennina sem neituðu að draga jepplinginn heldur eingöngu að koma strandaglópnum til byggða. Stóðu björgunarsveitirnar við það, en maðurinn má búast við að þurfa að leita leiða til að koma ökutæki sínu til byggða þegar dagar.“