Ellefu milljarðar tonna af ís bráðna úr jöklum hér á landi á ári hverju. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn bandarískra vísindamanna. Samkvæmt rannsókninni veldur það því að landið rís um 35 millimetra á hverju ári og getur það orðið til þess að eldgos verði tíðari.
Er það mun hraðar heldur en rannsóknarmenn töldu fyrst og sýna aðrar rannsóknir að landið fór að rísa hraðar um árið 1980. „Okkar rannsóknir sýna tengingu á milli landrisi og minnkun jöklanna á Íslandi,“ sagði Kathleen Compton, einn þeirra vísindamanna sem vann að rannsókninni, í yfirlýsingu.
Þó svo að 35 millimetrar hljómi ekki eins og mikið bendir Compton á að Ísland sé ekki hvaða eyja sem er, heldur er hún eldfjallaeyja. Á vef TIME er vitnað í Compton sem setir að þegar að jöklar bráðni eigi kvika greiðari leið að yfirborði og þegar að landið rísi minnkar þrýstingur á bergið. Gerir það bergið mýkra og eldgos því tíðari. Með auknum loftlagsbreytingum má gera ráð fyrir því að landið rísi hraðar um miðja öldina, jafnvel um 40 millimetra. Getur það orðið til þess að eldgos, eins og það sem varð í Eyjafjallajökli árið 2010, verði að jafnaði á sjö ára fresti.
Umfjöllun TIME um rannsóknina.