„Mér finnst ekki mikill drengskapur í því að hanna þessa stöð og búa hana til á ÍNN-launum. Það er það eina sem ég hef út á þessa stöð að setja,“ segir sjónvarpsstjóri ÍNN, Ingvi Hrafn Jónsson, um hina nýju sjónvarpsstöð Hringbraut sem fer í loftið um miðjan febrúar.
Framkvæmdastjóri og aðaleigandi Hringbrautar er Guðmundur Örn Jóhannsson en hann var áður framkvæmdastjóri ÍNN.
Guðmundur hefur fengið marga fjölmiðla- og stjórnmálamenn til liðs við sig. Í þeim hópi eru Þorsteinn Pálsson, Valgerður Sverrisdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Margrét Kristmannsdóttir og Daði Már Kristófersson.
Þetta segir Ingvi Hrafn vera stórpólitísk tíðindi. „Viðreisn er að viðra sína vængi og þetta eru fyrstu skref þeirra í stórveldisdraumum að koma 10 eða 12 mönnum á þing í næstu kosningum. Ég er búinn að sjá Miklagarð koma og fara og fjöldann allan af stöðvum. Það mega allir opna sjónvarpsstöð eins og ég gerði en þessi er öðruvísi en allar aðrar því hún er beint málgagn þessarar nýju pólitísku hreyfingar.
Þeir sem standa að stöðinni reyndu að kaupa ÍNN en það gekk ekki upp og ég veit alveg á hvaða forsendum það var. Þarna er fullt af góðu fólki og ekkert út á það að setja. Þetta er bara fyrsta skref Viðreisnar í sinni baráttu,“ segir Ingvi Hrafn, sjónvarpsstjóri ÍNN.
Frétt mbl.is: „Okkur var hent út af Stöð 2 samdægurs“