„Heimurinn hefur misst mikið“

Með Vigdísi og Weizsäcker tókst vinátta sem varði í áratugi.
Með Vigdísi og Weizsäcker tókst vinátta sem varði í áratugi. Ljósmynd/Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag er fyrrverandi forseti Þýskalands, Richard von Weizsäcker, fallinn frá, 94 ára að aldri. Forsetatíð hans varði frá 1984 til 1994 og var Weizsäcker því forseti á sama tíma og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, sem gegndi embætti frá 1980 til 1996.

Weizsäcker kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1992 og í samtali við mbl.is segir Vigdís að heimsóknin hafi verið honum afar eftirminnileg. „Við lögðum af stað í ferð um landið og fórum fyrst norður í land, að Mývatni. Þaðan flugum við svo á Hornafjörð. Hann hafði sérstaklega mikið yndi af því að koma til landsins og þessari heimsókn gleymdi hann aldrei.“

Vigdís og Weizsäcker höfðu þó kynnst áður en Weizsäcker varð forseti. „Mín fyrstu kynni af honum voru þegar hann var borgarstjóri Vestur-Berlínar, þegar hún var eyland í Austur-Þýskalandi. Með okkur tókst góð vinátta sem við ræktuðum alla tíð og heimsótti ég hann oft á ferðum mínum til Berlínar.“

Deildu áhuga á menningarmálum

Weizsäcker fæddist þann 15. apríl árið 1920, eða nákvæmlega 10 árum á undan Vigdísi því þau eiga sama afmælisdag. Vigdís segir að fleira hafi þó sameinað þau. „Við náðum prýðilega saman enda deildum við einnig sama áhuga á menningarmálum,“ segir hún og bætir við að Weizsäcker hafi verið einkar framsýnn og skarpur í hugsun. „Það var yfirleitt ákaflega hvetjandi fyrir andann að hitta hann því hann var svo gáfaður maður.“

Hún segir enn fremur að Weizsäcker hafi verið mjög virkur í umræðu um heimsins mál fram á hinsta dag. „Við hittumst oft á síðustu árum sem meðlimir í Interaction, samtökum fyrrverandi forseta og forsætisráðherra. Samtökin halda fundi víða um heim og við mættum oftsinnis á þessa fundi og ræddum málefni þeirra staða sem hýstu fundina hverju sinni.“

„Samtíðin hefur ekki ráð á að missa svona menn“

„Síðast er við áttum fund, í Berlín fyrir tveimur eða þremur árum, þá voru þeir þar í samtali, hann og Helmut Schmidt (fyrrv. kanslari Vestur-Þýskalands). Þeir voru báðir svo skarpir og höfðu gríðarlega mikið til málanna að leggja,“ segir Vigdís.

Að lokum segir hún að heimurinn sjái nú á eftir merkum manni. „Mér finnast þetta daprar fréttir og ég mun sakna hans í samtíðinni. Samtíðin hefur ekki ráð á að missa svona menn. En ekki er hægt við dómarann að deila. Heimurinn hefur misst mikið þó svo að hann hafi lifað sinn dag.“

Vigdís og Weizsäcker ræða saman á fundi þeirra í Berlín …
Vigdís og Weizsäcker ræða saman á fundi þeirra í Berlín árið 2004. Ljósmynd/Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert