Pólskt diskó ómaði um Hafnarfjörð

Á sjöunda hundrað manns skemmtu sér konunglega í íþróttahúsinu Kaplakrika í Hafnarfirði í gærkvöldi þar sem pólsku hljómsveitirnar Boys og Basta tróðu upp. Hljómaði diskótónlist í húsinu til miðnættis.

„Við erum mjög ánægð með hvernig tókst til,“ segir Marta Magdalena Niebieszczanska, einn skipuleggjenda tónleikanna og ritstjóri fréttasíðunnar Iceland News Polska, í samtali við mbl.is. Hún bætir við að undirbúningur hafi hafist um mitt síðasta ár eftir að skipuleggjendur höfðu kannað hvaða tónlistarmenn lesendur síðunnar vildu fá til landsins.

„Það hefur vantað svona skemmtarnir hérna. Í gær sáum við heilu fjölskyldurnar koma og skemmta sér saman og fólk kom meira að segja langt utan af landi. Við fréttum af hópi frá Ólafsvík sem tók sig til og keyrði suður á tónleikana,“ segir Marta.

Á tónleikunum voru einnig seldar pólskar pylsur ásamt súrum gúrkum og pólsku brauðmeti. „Þetta snýst allt saman um að skapa góða stemningu og gefa fólki færi á að slaka og gera sér glaðan dag í kunnuglegu umhverfi.“

Marta og félagar standa nú í ströngu við skipulagningu rapptónleika pólsku rappsveitarinnar Pokahontaz, sem verður á Gauknum í mars. Hljómsveitin er frá Katowice í Póllandi og er búin að spila saman í meira en 15 ár. Hefur sveitin gefið út fjórar plötur og er gullplötuhafi þar í landi. Erpur Eyvindarson mun sjá um upphitun og stefnir því allt í pólsk-íslenska hip-hop-stemningu á Gauknum 14. mars næstkomandi.

Fésbókarsíða rapptónleikanna: Pokahontaz á Gauknum 14. mars

Sjá frétt mbl.is: Boys með tónleika í Kaplakrika

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert