Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir samninga ríkisins við lækna og aðra hópa vera mestu úttafkeyrslu við samningaborðið frá árinu 1989. Gylfi var í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í morgun og sagði hann að þrátt fyrir aukinn kaupmátt séu félagsmenn ASÍ ósáttir við stöðuna enda sé óréttlátt að þeir fái 2 til 3% kjarabót á meðan aðrir fái 30%.
„Auðvitað horfir fólk á síðustu samninga sem við gerðum en það horfir líka á þá samninga sem komu eftir á. (...) Munur á milli 3 og 30% gengur hvergi upp,“ sagði Gylfi.
Sigurjón vísaði í könnun ASÍ þar sem fram kom að fólk virtist tilbúnara að leggja niður störf en áður í þágu kjarabaráttunnar og sagði Gylfi aukinn hagvöxt spila þar inn í. „Atvinnuleysi er að minnka og fólki stendur kannski ekki eins mikil ógn af atvinnumissi og áður. (...) Þess vegna færist athyglin til.“
Gylfi vísaði til kjarabaráttu lækna og kennara þar sem oft hafi verið talað um að ekki komi að sök að styðja aukalega við svo fámenna hópa. Hins vegar séu kennarar um 10 þúsund talsins og því ekki sérlega fámennur hópur.
„Hættan sem mér finnst í þessu, ef við horfum fram á við, þá hefur tekist með þessu óréttlæti kjaramálanna að gera hugtakið stöðugleika að skammaryrði. Ef maður nefnir það hugtak að leggja áherslu á stöðugleika hugsar fólk: já þar fæ ég minna. (...) Við erum auðvitað fjöldinn og gerum okkur grein fyrir því en það skapar ekki afsökun fyrir fjármálaráðherra.“
Segir hann að erfiðara verði að mynda samstöðu um kjaramál innan Alþýðusambandsins nú en áður og það sama gildi um samstöðu með öðrum hópum í kjarabaráttunni. Segir óljóst hvort komi til allsherjarverkfalls en að átökin hafi þegar hafist og þau muni halda áfram.