„Ég held að ég sé fyrsti einhverfi Alþingismaðurinn, þó ekki sé nokkur vafi á að í bæði fortíð og nútíð hafi starfað hér fólk með alls konar raskanir og mér sýnist að það sé alls óvíst að ég sé allra skrýtnastur hér,“ sagði Sigurður Örn Ágústsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á þingi í dag.
Sigurður Örn kom inn sem varamaður fyrir Harald Benediktsson. Gerði hann greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins að umtalsefni sínu. Við núverandi andstæður væri 60 börnum vísað frá árlega þar sem stöðin réði ekki við álagið. Skoraði hann á félagsmálaráðherra að tryggja að þessir einstaklingar fái þá þjónustu sem þeir þurfa.
Að því sögðu notaði Sigurður Örn tækifærið til að vekja athygli á því að hann væri mögulega fyrsti einhverfi þingmaðurinn.
„Ólíkt flestum ykkar hér inni er ég greindur. Það er að segja greindur einhverfur og ég held að ég sé fyrsti einhverfi Alþingismaðurinn, þó ekki sé nokkur vafi á að í bæði fortíð og nútíð hafi starfað hér fólk með alls konar raskanir og mér sýnist að það sé alls óvíst að ég sé allra skrýtnastur hér,“ sagði Sigurður Örn og uppskar hlátur þingheims fyrir vikið.