„Þetta voru um tuttugu dýr sem dóluðu sér í gegnum bæinn. Þetta gerist reglulega og menn hafa grínast með það að þau komi hingað í kaupstaðarferðir til að versla,“ segir Ívar Ingimarsson, eigandi Gistihúss Olgu á Egilsstöðum, en hann tók myndir af því í gærmorgun þegar hjörð hreindýra rölti í gegnum bæinn.
Hreindýrin leituðu sér ætis á túni við þjóðveginn sem liggur í gegnum miðbæinn á Egilsstöðum, en myndirnar voru teknar um klukkan níu í gærmorgun. „Ég stöðvaði bílinn um þrjátíu metra í burtu. Það er algengt þegar dýrin eru svona nálægt að fólk stöðvi bílana og sé að skoða þau en þau virðast nokkuð róleg því þau vita að þau eru örugg á svæðinu á þessum tíma.“
Egilsstaðir hafa gjarnan verið nefndir hreindýrabær Íslands, og segir Ívar bæinn svo sannarlega standa undir nafni. „Það er ekki á mörgum stöðum þar sem þú ert að þvælast í miðbænum og rekst á hreindýr. Það er svolítið sérstakt, en það er rosalega gaman að sjá þessi villtu dýr svona nálægt. Þau eru voðalega róleg svo þetta er mjög vinalegt og skemmtilegt.“
Ívar birti myndirnar á Facebook-síðu Gistihúss Olgu, og hafa þær vakið töluverða athygli. „Þessar myndir hafa farið ansi víða og margir hafa skoðað þær. Sumir hafa grínast með það að það væri þægilegt að hafa veiðitímabilið núna því þá væri hægt að sækja sér dýr úr vinnunni,“ segir hann og hlær. „En það er mjög gaman ef hreindýrin vekja athygli á svæðinu.“