Nýliðinn janúar var kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í janúar á seinni árum og var hitinn undir meðallagi síðustu tíu ára alls staðar á landinu en víðast hvar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 nema sums staðar sunnanlands. Úrkomusamt var um nær allt land en þó ekki nærri metum. Nokkuð var umhleypingasamt en þó ekki mörg stórviðri, að því er fram kemur í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í janúar 2015.
Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 18 daga mánaðarins.
Mesta frostið 26 stig en mesti hitinn 13,6 stig
Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist -0,3 stig, 0,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -1,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti janúar í Reykjavík frá 2007 að telja. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn -1,2 stig, 0,9 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990, en -1,4 undir meðallagi síðustu tíu ára.
Að tiltölu var kaldast á stöðvum á Suðurlandi og sums staðar á hálendinu en hlýjast við norðurströndina. Vik frá meðallagi síðustu tíu ára var neikvæðast á Laufbala, -3,2 stig, en minnst í Grímsey, -0,5 stig.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,3 stig, en lægstur á Brúarjökli, -7,6 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, -5,6 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 13,6°C á Skjaldþingsstöðum þann 5. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á sama stað og sama dag, 12,8 °C. Lægsti hiti á landinu mældist -26,0 stig á Setri þann 11. Lægsti hiti í byggð mældist -22,3 stig í Möðrudal þann 18. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -19,0 stig í Stafholtsey þ. 11.
Úrkoma 70% yfir meðallagi í Reykjavík
Úrkomusamt var um mestallt land.
Úrkoma í Reykjavík mældist 127,3 mm og er það nærri 70 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 70,5 mm eða tæp 30 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 163,0 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 20 í Reykjavík og er það 7 fleiri en í meðalári; á Akureyri voru slíkir dagar 13,2 fleiri en að meðallagi.
21 alhvítur dagur í Reykjavík en 28 á Akureyri
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 29,3 og er það um meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 8,9 og er það 2 fleiri en í meðaljanúar.
Snjór var nokkuð þrálátur á jörð á landinu í mánuðinum en var lengst af ekki mikill; einna mestur þó um miðbik Norðurlands.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 21. Að meðaltali 1971 til 2000 var alhvítt 15 daga í janúar. Í janúar 2012 voru alhvítu dagarnir 24. Alhvítt var 28 daga á Akureyri, það er 5 dögum meira en í meðaljanúar.
Samgöngur riðluðust nokkuð á vegum úti í hríðarveðrum í mánuðinum.
Vindáttir voru óstöðugar, suðlægar áttir voru ríkjandi dagana 3. til 10. og 18. til 27. Stormasamt var með köflum; einna verst voru veðrin þann 6. og 7. (af suðaustri og suðri), þann 19. (af suðaustri) og þann 25. (af suðvestri), segir í tíðarfari Veðurstofunnar.