Um 37% landsmanna styðja ríkisstjórnina samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Stuðningurinn stendur nánast í stað á milli mánaða, en um er að ræða 0,7 prósentustiga aukningu. Helstu breytingar á fylgi flokka milli mánaða eru að Framsóknarflokkurinn bætir við sig tveimur prósentustigum og Píratar um einu prósentustigi.
Gallup kannaði fylgi flokka ef kosið yrði til Alþingis og einnig var spurt um stuðning við ríkisstjórnina.
Fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna minnka um tvö prósentustig hjá hvorum flokki.
Nær 27% þeirra sem tóku afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag og rösklega 18% segjast myndu kjósa Samfylkinguna. Nær jafnmargir segjast myndu kjósa Bjarta framtíð og Framsóknarflokkinn og mælist fylgi þessara flokka nærri 13%. Tæplega 12% segjast myndu kjósa Pírata, liðlega 11% Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og um 6% aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.
Tæplega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og tæplega 13% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.
Spurt var:
Um er að ræða netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 7. til 28. janúar 2015. Heildarúrtaksstærð var 4.341 og þátttökuhlutfall var 58,4%.