Meirihlutinn vill ekki ganga í ESB

AFP

Meirihluti landsmanna er andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent gerði fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu í sambandið eða 54% sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti. 46% eru hins vegar henni hlynnt. Greint var frá niðurstöðunum í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Staðan er nánast óbreytt frá sambærilegri skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Já Ísland síðasta haust þegar 54,7% voru andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 45,3% henni hlynnt. Hliðstæðar tölur má einnig sjá í könnun sem Capacent gerði í mars á síðasta ári en þá voru 56% andvíg inngöngu en 44% henni hlynnt sé miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti.

Einnig var spurt um afstöðu til umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið í skoðanakönnun Capacent nú. Samkvæmt henni eru 53,2% andvíg því að draga umsóknina til baka en 35,7% eru því hlynnt. Aðrir eru óákveðnir. Sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu með og á móti eru tæp 60% andvíg því að draga umsóknina til baka en um 40% styðja það.

Færri hjá VG og BF vilja halda í umsóknina

Samkvæmt skoðanakönnun Capacent í mars á síðasta ári þegar afstaðan til málsins var síðast könnuð voru hlutföllin nokkurn veginn þau sömu, 59% voru andvíg því að draga umsóknina til baka en 41 því hlynnt. Hliðstæðar tölur var að finna í könnun sem Capacent gerði í ágúst 2013 fyrir Já Ísland eða 60% andvíg því að draga umsóknina til baka en 40 því hlynnt.

Mikill meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins vilja að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka eða 70% og 59%. Tólf prósent kjósenda Framsóknarflokksins vilja hins vegar halda í umsóknina og 28% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Í ágúst 2013 vildu 61% kjósenda Framsóknarflokksins draga umsóknina til baka og 59% kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Staðan er þveröfug hjá Samfylkingunni en 88% kjósenda flokksins vilja ekki draga umsóknina til baka og það sama á við um 77% kjósenda Bjartrar framtíðar og 64% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Í ágúst 2013 vildu 91% kjósenda Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hins vegar halda í umsóknina og 75% kjósenda VG. Stuðningur við það hefur samkvæmt því dregist talsvert saman hjá tveimur síðarnefndu flokkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert