Sighraði öskju Bárðarbungu verulegur

Eldgosið í Holuhrauni hefur staðið í rúmlega fimm mánuði, enn er mikið hraunflæði í Holuhrauni og sighraði öskju Bárðarbungu verulegur. Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu. Vinna við nýtt hættumat fyrir gossvæðið stendur nú yfir. Reiknað er með því að henni ljúki í næstu viku.

Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs almannavarna sem fór fram í morgun.

Frá síðasta fundi vísindamannaráðs, sem fram fór sl. föstudag, hafa fimm skjálftar mælast sem eru á bilinu 4 til 4,6 að stærð.

Rúmlega tíu skjálftar mældust á milli 3,0-3,9 á tímabilinu. Alls hafa mælst tæplega 130 skjálftar í Bárðarbungu frá því á föstudag, eða á milli 20 og 30 skjálftar á dag. Ekki hefur mælst skjálfti yfir 5 að stærð frá 8. janúar.

Í kvikuganginum hafa mælst um tíu skjálftar á dag frá því á föstudag. Allir skjálftanna eru undir M2,0 að stærð.

Búast má við talsverðri gasmengun í kringum Holuhraun

GPS mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu.

Á laugardag mældist brennisteinsdíoxíðmengun vera 2300 µg/m³ (míkrógrömm á rúmmetra) á Höfn í Hornafirði.

Í dag má í fyrstu búast við talsverðri gasmengun víða í kringum Holuhraun, en norðaustur og austur af upptökunum síðdegis. Á morgun (miðvikudag) berst mengunin einkum austur af eldstöðvunum. 

Þrír möguleikar eru enn taldir líklegastir um framvinduna:

  • Gosið í Holuhrauni heldur áfram þar til öskjusig í Bárðarbungu hættir. Gosið getur varað í marga mánuði enn.
  • Gosvirkni færist til suðurs undir Dyngjujökul og veldur jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum. Ef slíkt gos yrði langvinnt gæti það breyst í hraungos. 
  • Gos í öskju Bárðarbungu. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu.

Næsti fundur Vísindamannaráðs verður föstudaginn 6. febrúar, 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert