Mennta- og menningarmálaráðuneytið bendir á í bréfi til sveitarfélaganna Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Skaftárhrepps að Torfajökulssvæðið er á yfirlitsskrá ríkisstjórnarinnar til heimsminjaskrár UNESCO.
Ráðuneytið hvetur sveitarfélögin til að taka tillit til fyrirhugaðrar umsóknar um skráningu svæðisins á heimsminjaskrá í vinnu við gerð skipulags fyrir suðurhálendið og að ekki verði spillt möguleikum á því að fá slíka umsókn samþykkta.
Þá hafa verið kynntar fyrirhugaðar breytingar á aðstöðu og þjónustu í Landmannalaugum, sem yrði að mestu flutt á nýtt svæði og byggt yrði upp í Námshrauni á stað sem heitir Sólvangur. Náttúrufræðistofnun hefur gert athugasemdir við rask sem því myndi fylgja, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.