Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra kepptu í hreyfingu í dag við ræsingu Lífshlaupsins í Hamraskóla í Grafarvogi. Það vakti athygli að Sigmundur Davíð klæddist einum íþróttaskó og einum leðurskó við keppnina í dag.
Minnti það á atvik í september 2013 þegar að Sigmundur klæddist ósamstæðum skóm þegar hann hitti Barack Obama, Bandaríkjaforseta, í september 2013. Var það vegna sýkingar í fæti.
Af fagnaðarlátum Sigmundar Davíðs að dæma sigraði hans lið lið mennta- og menningarmálaráðherra í dag.
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningaverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Markmið þess er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni daglegu hreyfingu í frítíma, heimilisstörfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu. Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og fullorðnir a.m.k. 30 mínútur á dag.
Með Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.
Lífshlaupið skiptist upp í grunnskólakeppni, framhaldskólakeppni, vinnustaðakeppni og einstaklingskeppni.
Hér má skrá sig í Lífshlaupið.