Bílstjórinn sem ók átján ára gömlu fötluðu stúlkunni sem týndist í gær mun ekki tjá sig um málið. Þetta segir Sigtryggur Magnússon, framkvæmdastjóri All Iceland Tours, sem ekur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sem vill ekki gefa upp nafn mannsins.
„Ég ber ábyrgð á mínu starfsfólki og vill hlífa því svo ég gef fjölmiðlum ekki kost á að fara í starfsfólkið mitt,“ segir hann í samtali við mbl.is. Bílstjórinn hefur verið leystur frá störfum á meðan rannsókn málsins stendur yfir.
Sigtryggur segir að fundað verði með Strætó bs. um málið í dag, og í kjölfarið verði gefin út sameiginleg yfirlýsing. „Vonandi verður farsæll endir á öll þessi leiðindarmál,“ segir hann.
Í samtali við mbl.is í gær sagðist Sigtryggur sinna þessum akstri venjulega sjálfur en annar bílstjóri hafi ekið fyrir hann í gær, sökum anna hjá Sigtryggi. Hann sagði bílstjórann hafa sótt átta einstaklinga í Fjölbrautaskólann í Ármúla á 16 farþega Ford Transit.
Sagði hann Ólöfu hafa farið út úr bílnum, en hlaupið aftur inn í hann og líklega falið sig bak við öftustu sætin. Bílstjórinn ók með fjölda fólks eftir þetta en Ólafar varð ekki vart. Hann lagði síðan bílnum fyrir utan heimili sitt og fann ekki Ólöfu fyrr en um kvöldið.
Pétur Gunnarsson, faðir Ólafar sagði lýsingar Sigtryggs þó ekki standast skoðun í samtali við mbl.is í gær. Sagði hann ómögulegt að Ólöf, eða Lóa eins og hún er kölluð, hafi losað sig úr öryggisbelti, enda kunni hún það ekki og hafi aldrei gert það. Hann segir að Ólöf hafi enn verið í beltinu þegar hún fannst í bifreiðinni fyrir utan heimili bílstjórans.
Bráðabirgðastjórn verður síðar í dag skipuð yfir Ferðaþjónustu fatlaðra með aðkomu fulltrúa hagsmunasamtaka. Var þetta þetta ákveðið á fundi þar sem fulltrúar Strætó hittu borgarstjóra og fulltrúa sveitarstjórna sem reka Strætó í morgun. Með þessu á að bregðast við málinu sem upp kom í gær.