Bílstjórinn mun ekki tjá sig

Bílstjórinn sem ók átján ára gömlu fötluðu stúlkunni sem týndist í gær mun ekki tjá sig um málið. Þetta segir Sig­trygg­ur Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri All Ice­land Tours, sem ekur fyr­ir ferðaþjón­ustu fatlaðra, sem vill ekki gefa upp nafn mannsins.

„Ég ber ábyrgð á mínu starfsfólki og vill hlífa því svo ég gef fjölmiðlum ekki kost á að fara í starfsfólkið mitt,“ segir hann í samtali við mbl.is. Bílstjórinn hefur verið leystur frá störfum á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Sigtryggur segir að fundað verði með Strætó bs. um málið í dag, og í kjölfarið verði gefin út sameiginleg yfirlýsing. „Vonandi verður farsæll endir á öll þessi leiðindarmál,“ segir hann.

Í samtali við mbl.is í gær sagðist Sigtryggur sinna þessum akstri venju­lega sjálf­ur en ann­ar bíl­stjóri hafi ekið fyrir hann í gær, sök­um anna hjá Sig­tryggi. Hann sagði bílstjórann hafa sótt átta einstaklinga í Fjöl­brauta­skól­ann í Ármúla á 16 farþega Ford Transit.

Sagði hann Ólöfu hafa farið út úr bílnum, en hlaupið aftur inn í hann og lík­lega falið sig bak við öft­ustu sæt­in. Bíl­stjór­inn ók með fjölda fólks eft­ir þetta en Ólaf­ar varð ekki vart. Hann lagði síðan bíln­um fyr­ir utan heim­ili sitt og fann ekki Ólöfu fyrr en um kvöldið.

Pét­ur Gunn­ars­son, faðir Ólaf­ar sagði lýs­ing­ar Sig­tryggs þó ekki stand­ast skoðun í samtali við mbl.is í gær. Sagði hann ómögulegt að Ólöf, eða Lóa eins og hún er kölluð, hafi losað sig úr öryggisbelti, enda kunni hún það ekki og hafi aldrei gert það. Hann seg­ir að Ólöf hafi enn verið í belt­inu þegar hún fannst í bif­reiðinni fyr­ir utan heim­ili bíl­stjór­ans.

Bráðabirgðastjórn verður síðar í dag skipuð yfir Ferðaþjón­ustu fatlaðra með aðkomu full­trúa hags­muna­sam­taka. Var þetta þetta ákveðið á fundi þar sem full­trú­ar Strætó hittu borg­ar­stjóra og full­trúa sveit­ar­stjórna sem reka Strætó í morg­un. Með þessu á að bregðast við málinu sem upp kom í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert