Gátu ekki fært húsin vegna bíla

Hafist var handa við flutning tveggja húsa sem standa við Grettisgötu í miðborg Reykjavíkur um miðjan dag í dag. Búið er að setja húsin á flutningavagna sem áttu að flytja þau í burtu en ekki er hægt að aka húsunum út Grettisgötu þar sem tveir bílar hafa ekki verið færðir. 

Beðið er eftir dráttarbílum sem munu draga bílana í burtu. Íbúar götunnar fengu tilkynningu fyrir viku þar sem þeir voru beðnir um að hafa bíla sína ekki í götunni á meðan flutningarnir standa yfir. 

Húsin voru hífð hátt yfir önnur og um tíma var sem húsin svifu yfir miðborginni. Húsin verða flutt út á Hólmaslóð og geymd þar til grunnur á framtíðarstað þeirra hefur verið gerður.

Húsin sem verða flutt af skipulagsástæðum eru Grettisgata 17 og bakhús að Laugavegi 36 og var Grettisgötu milli Frakkastígs og Klapparstígs lokað tímabundið frá hádegi í dag til að koma flutningstækjum að, en húsunum verður lyft á flutningsvagna á Grettisgötu.

Uppfært kl. 18:44

Bílarnir tveir voru dregnir í burtu og þá var hægt að aka flutningavögnunum út úr götunni. 

Frétt mbl.is: Hús á flugi yfir miðborginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert