„Kvikmyndin GoldenEye inniheldur m.a. myndskeið þar sem kona kremur mann til bana í samförum og hópur fólks er felldur í skotárás. Blóðugir áverkar eru hins vegar ekki sýnilegir.“ Þetta segir í frétt á vefsvæði fjölmiðlanefndar og er svar við því hvers vegna kvikmyndin GoldenEye var bönnuð börnum innan tólf ára.
Eins og kom fram á mbl.is í gær þá braut Ríkisútvarpið gegn fjölmiðlalögum með sýningu kvikmyndarinnar GoldenEye föstudaginn 9. janúar sl., en myndin var sýnd kl. 20.55. Óheimilt er að miðla efni, sem ekki er metið við hæfi barna yngri en 12 ára, í dagskrá fyrr en eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum.
Til að skýra ákvörðun sína hefur fjölmiðlanefnd birt frétt á vefsvæði sínu. Þar segir meðal annars: „Sé efni aldursmetið í samræmi við Kijkwijzer-kerfið veldur sýnilegt ofbeldi í myndefni því að sjónvarpsefnið fær sjálfkrafa aldursmat. Það er með öðrum orðum ekki leyft til sýninga fyrir alla aldurshópa. Það fer síðan eftir því hvort ofbeldið er verulegt eða óverulegt, í hvers konar samhengi ofbeldið er sýnt og hvort ofbeldið veldur sýnilegum áverkum, alvarlegum áverkum eða engum áverkum hvert hið endanlega aldursmat sjónvarpsefnisins er.“
Eftirfarandi lista má finna í frétt fjölmiðlanefndar:
Þá segir að klám valdi því sjálfkrafa að myndefni fær aldursmatið 18+ hér á landi. Neðri mörkin eru skilgreind þannig að innihaldi myndefni kynlíf og kynferðislegar athafnir, jafnvel þótt ekki sé um klám að ræða, er það ekki talið við hæfi barna undir 12 ára aldri.
Frétt mbl.is: RÚV sýndi James Bond of snemma