„Við erum að vinna hörðum höndum í því sem að þessu snýr og passa upp á að þetta geti ekki komið fyrir aftur. Þetta er algjört reiðarslag,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. um atburði gærdagsins þegar 18 ára gömul þroskaskert stúlka fannst í læstum bíl á vegum ferðaþjónustu fatlaðra.
Talið er að stúlkan, Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, hafi verið í bílnum í um sjö klukkustundir.
Jóhannes sat fund í morgun með borgarstjóra, fulltrúum sveitarstjórna sem reka Strætó, ÍTR, velferðarsviðs og Hafnarfjarðar þar sem ákveðið var að bráðabirgðastjórn yrði síðar í dag skipuð yfir Ferðaþjónustu fatlaðra með aðkomu fulltrúa hagsmunasamtaka. Með þessu á að bregðast við málinu sem upp kom í gær.
Að sögn Jóhannesar mun stjórnin þá fylgjast með málum akstursþjónustunnar dag frá degi, og passa upp á að atvik sem þessi komi ekki upp aftur. Hann segir skipan nefndarinnar ekki liggja fyrir, en hún verði þó skipuð fulltrúum hagsmunaaðila og fulltrúum velferðarsviða bæjarfélaganna með aðkomu stjórnar Strætó. Stefán Eiríksson sviðsstjóri velferðarsviðs mun leiða stjórnina.
Boðað hefur verið til sameiginlegs fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 12.00 í hádeginu í dag þar sem bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu auk borgarstjóra hittast ásamt stjórn Strætó. Á dagskrá fundarins liggur fyrir tillaga sem miðar að því að gera úrbætur á ferðaþjónustu fatlaðs fólks með aðkomu hagsmunasamtaka.
„Þetta er búin að vera brösug fæðing og miklu viðameira verkefni en menn áttu von á,“ segir Jóhannes. „Nú er verið að setja töluvert meiri fókus í það að koma þessu í það horf sem þetta á að vera komið í.“ Þá segir hann Strætó setja mikinn fókus á það að betrumbæta verkferla til að koma í veg fyrir að tilvik eins og upp kom í gær komi ekki fyrir aftur.
Boðað hefur verið til fundar með verktökum Strætó klukkan 13 í dag. „Þar munum við fara yfir málin og koma með bráðabirgðarreglur til að þessu mál komi ekki upp aftur,“ segir Jóhannes.
Þá segir hann fulltrúa Strætó hafa haft samband við fjölskyldu Ólafar strax í gær, þar sem þau voru beðin afsökunar. „Við viljum auðvitað að þeir sem nota þessa þjónustu upplifi sig örugga, svo við munum gera okkar besta í því að finna þessu farveg.“