„Ég fékk sjokk þegar ég las um þriggja ára áætlun um útrýmingarherferð gegn risahvönn. Þessi planta er búin að vaxa kringum húsið mitt í 40 ár og hefur veitt mér og fleirum ánægju. Mér vitanlega hefur enginn skaðað sig á henni.“
Þetta segir Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri í samtali í Morgunblaðinu í dag um fyrirhugaðar aðgerðir Reykjavíkurborgar gegn tröllahvönn í borgarlandinu.
Í umfjöllun um áformaða herferð gegn tröllahvönn í blaðinu í gær sagði Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá borginni, að plantan væri ágeng, skyggði á annan gróður, dreifði sér hratt og eitraður safi hennar gæti valdið varanlegum skaða á fólki. Allt þetta kemur Hrafni spánskt fyrir sjónir en tröllahvönn vex í Laugarnesi þar sem hann býr.