Á dagskrá RÚV í kvöld er bíómyndin Rocky, með Sylvester Stallone í aðalhlutverki. Myndin hefst kl. 21.30, en þegar hún var sýnd í kvikmyndahúsum hérlendis 1978 var hún bönnuð innan 12 ára. Hinn 2. febrúar sl. úrskurðaði fjölmiðlanefnd að Ríkisútvarpið hefði brotið gegn lögum um fjölmiðla með sýningu myndarinnar GoldenEye fyrir kl. 22 föstudaginn 9. janúar.
Í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 er að finna svokallað „vatnaskilaákvæði“, sem kveður á um að efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á börn megi miðla í línulegri dagskrá eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar.
Fjölmiðlanefnd taldi RÚV hafa gerst brotlegt með því að sýna GoldenEye kl. 20.55, þar sem myndin er ekki talin við hæfi barna yngri en 12 ára, m.a. af skoðunarkerfinu Kijkwijzer frá NICAM.
Samkvæmt sama kerfi er fyrsta myndin um boxarann Rocky ekki talin við hæfi barna innan 6 ára, en í auglýsingu Tónabíós, sem birtist í Morgunblaðinu í apríl 1978, er myndin sögð bönnuð börnum innan 12 ára.
Á dagskrársíðu RÚV segir að myndin sé ekki við hæfi ungra barna, en á vefnum imdb.com segir að myndin hafi verið bönnuð innan 12 ára á Íslandi og innan 15 ára í Noregi, svo dæmi séu tekin.
Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun 2. febrúar sl. þar sem um fysta brot var að ræða.
Uppfært kl. 21.08:
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir að Rocky hafi ekki verið tímasett fyrir áðurnefnd vatnaskil að vanhugsuðu máli, heldur hafi vottaðir myndskoðarar metið myndina bannaða börnum yngri en 7 ára. Þá hafi Sjónvarpið nýjasta mat til hliðsjónar, sem fengið er frá hollenska skoðunarkerfinu Kijkwijzer, sem getið er hér að ofan. Að sögn Skarphéðins styðjast öll íslensk kvikmyndahús og sjónvarpsstöðvar við það kerfi.
Eftirfarandi færsla birtist á Facebook-síðu RÚV fyrr í kvöld:
Að gefnu tilefni skal tekið fram að kvikmyndin Rocky sem verður á dagskrá RÚV í kvöld kl. 21.30 er bönnuð börnum yngri en 7 ára skv. mati vottaðra myndskoðara RÚV. Þar er einnig haft til viðmiðunar sem endranær mat hollenska skoðunarkerfisins Kijkwijzer en skv. því er myndin bönnuð börnum yngri en 6 ára. Þegar myndin var sýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi árið 1978 var hún bönnuð börnum yngri en 12 ára en RÚV miðar ætíð við nýjasta mat hverju sinni. Það þýðir að ekki er þörf á að dagskrársetja myndina eftir „vatnaskil“ sem eru eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar og til 5 á morgnana. Sjá nánar mat hollenska skoðunarkerfisins: http://www.kijkwijzer.nl/rocky/page45-0-58366.html