Fjármagn þarf að vera í samræmi við þörf

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin.
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þarna var undirbúningur ekki nægur, greining á verkefninu ekki næg og þjálfun þeirra sem eiga að takast á við það ekki næg,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is. Nefndin kom saman til aukafundar í morgun þar sem rædd voru þau alvarlegu mál sem komið hafa upp í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra.

Á fundinum sátu fulltrúar frá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, borgarstjóri, stjórnarformaður Strætó bs, Stefán Eiríksson sem leiðir neyðarstjórn vegna ferðaþjónustu fatlaðra ásamt fleirum úr stjórninni, fulltrúar frá Sjálfsbjörgu, Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu ásamt réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Þá sat velferðarráðherra fundinn auk fleiri aðila úr ráðuneytinu. 

Þarf að horfa einstaklingsmiðaðra á þjónustuna

Að sögn Sigríðar var fundurinn aðallega til upplýsingar þar sem þjónustan er á ábyrgð sveitarfélaganna. Ráðuneytið og réttindagæsluvaktin hafi svo eftirlit með framkvæmdinni. „Við vildum fá upplýsingar um það hvað það var sem hefði þurft að gera betur og hvernig verður farið í að lagfæra þetta,“ segir hún og bætir við að í því samhengi hafi meðal annars verið rætt um það að vafasamt væri að hafa þjónustu sem þessa í útboði. „Þetta er stór hópur með ólíkar þarfir og það þarf að horfa á þetta einstaklingsmiðaðra.“

Sigríður segir aðkomu nefndarinnar fyrst og fremst þá að fá upplýsingar ef einhverju þarf að breyta í lögum og tryggja að fjármagn fylgi lögbundnum skyldum. „Við komum ekki að málinu öðruvísi á þessu stigi en fannst mikilvægt að fá þessar upplýsingar. Það sem við þurfum að huga að í framhaldinu er að fá upplýsingar frá ráðherra þegar hún hefur farið yfir þetta og skoða hvort bæta þurfi löggjöfina og fjárveitingaþáttinn.

Fjármagn vantar í málaflokkinn

Sigríður segir það hafa komið fram á fundinum að fjármuni vantaði inn í málaflokkinn. Hún segir þetta ekki koma á óvart, en SÍS hafði m.a. bent á það í fjárlagagerðinni fyrir síðasta ár að það þyrfti að hækka útsvarið um 1% til að mæta fjárþörfinni í málaflokknum.

Aðspurð hvort frekari fjárveiting verði skoðuð svarar hún játandi. „Það er núna í gangi mat á yfirfærslu á málaflokknum þar sem verið að ræða fjármálahliðina, og svo kemur þingið að þessu í fjárlagagerðinni. Það þarf að líta til þess í fjárlögum að það sé verið að setja fjármagn í málaflokka sem er í samræmi við þörfina.

Þá segir Sigríður jákvætt hvað viðhorf til réttinda fatlaðs fólks hafi breyst, og hvað vitund um það að þjónusta til hópsins eigi að vera í lagi hafi aukist. „En á meðan viðhorfsbreytingin hefur átt sér stað hafa ekki fylgt nægilegir fjármunirnir.

Enn vandamál sem takast þarf á við

Eins og greint var frá í gær var neyðar­stjórn­ yfir ferðaþjón­ustu fatlaðra mynduð und­ir stjórn Stef­áns Ei­ríks­son­ar, sviðsstjóra vel­ferðarsviðs með aðild full­trúa Öryrkja­banda­lags­ins, Sjálfs­bjarg­ar og Þroska­hjálp­ar.

Sigríður segir mikilvægt að neyðarstjórnin hafi verið sett yfir ferðaþjónustuna, enda stór mál sem takast þurfi á við. „Það er þó augljóslega með markvissum hætti verið að fara yfir það hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að gera umfram það sem áður hefur verið gert, og það er jákvætt.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert