„Staðan í Finnlandi er vægast sagt mjög áhugaverð og við einfaldlega eigum bágt með að skilja hversu mikil neysla á skyri er orðin í landinu,“ segir Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Mjólkursamsölunnar.
Stöðug aukning hefur verið á sölu á skyri í Finnlandi síðustu ár og er neyslan komin umfram framleiðslugetu. Skyr fyrir Finnlandsmarkað er framleitt hér á landi og hjá Thise-mjólkurbúinu í Danmörku.
Jón Axel nefnir sem dæmi að í desember í fyrra hafi afkastagetan verið tvöfölduð til að mæta aukinni eftirspurn, sem hafði aukist um 200% á síðasta ári. Það dugi þó ekki til því vikupantanir á skyri í Finnlandi í síðustu viku hafi verið upp á 1,2 milljónir dósa. Það samsvarar 204 tonnum eða um tuttugu 40 feta gámum á einni viku.