Elti þjóf um miðborgina í nótt

Horft yfir miðborgina úr háhýsunum við Vatnsstíg.
Horft yfir miðborgina úr háhýsunum við Vatnsstíg. mbl./Sigurður Bogi Sævarsson

„Þessi næturhlaup voru ansi hressileg og tóku á. Ég var góða stund að ná mér niður þegar heim var komið,“ segir Leó Árnason, íbúi við Vatnsstíg í Reykjavík. Háhýsið sem hann býr í snýr út að Skúlagötu og ofan af elleftu hæð varð Leó þess var að eitthvað torkennilegt væri að gerast í nágrenninu. Brothljóð gaf vísbendingu.

Úr upphæðum í Vatnsstígsblokk sáu Leó og kona hans undarlegar mannaferðir við bensínstöð Olís. „Ég tíndi á mig spjarirnar í einum grænum, fór í íþróttaskóna og brunaði með lyftunni niður á jarðhæð og hljóp að bensínstöðinni. Í þá svipan var þjófurinn að koma út úr dyrunum með fangið fullt af góssi.“

Leigubílstjórinn undarlegur

Án þess að þokkapilturinn yrði þess var veitt Leó honum eftirför. Báðir fóru hratt yfir. Brotamaðurinn gerði sér svo lítið fyrir og braut rúðu í bíl á stæði við Skúlagötuna og henti þar inn góssi sínu.  

„Meðan strákurinn barði bílinn hitti ég leigubílstjóra og settist inn hjá honum. Sá var undarlegur í háttum. Ég bað hann um hjálp en hann var fálátur, sagðist ekkert skipta sér af svona. Vildi ekki einu sinni hringja á lögreglu,“ segir Leó sem missti aldrei sjónar á þjófinum. Og þegar sá hafði komið þýfinu af sér hófst eltingaleikur að nýju.

Gekk í flasið á löggunni

„Það var um klukkan fjögur sem konan mín hringdi í Neyðarlínuna. Gerði það um leið og ég fór út úr dyrunum. Asinn á mér var slíkur að ég gleymdi símanum. Í þessari eftirför var ég kominn upp á Laugaveg þegar á vegi mínum varð strákur sem lánaði mér símann sinn og ég var með lögguna í beinni þar sem við örkuðum hröðum skrefum niður Laugaveginn. Og þegar komið var niður í Bankastræti gekk gaurinn beint í flasið á löggunni og var handtekinn. Ég var kominn heim rétt fyrir klukkan fimm,“ sagði Leó þegar mbl.is vakti hann nú í morgunsárið.

Í fréttapistli lögregunnar um atburði næturinnar er vikið að Skúlagötumálinu og þar segir að „eftirtektarsamir góðborgarar“ hafi í raun leyst það.

Eftirför góðborgarans hafi leitt til handtöku mannsins, sem var um tvítugt. Sá var ölvaður mjög og gat af þeim sökum litlu svarað um háttalagið. Var því vistaður í fangaklefa, en þarf væntanlega að standa fyrir máli sínu áður en hann heldur út í frelsið.

Leó Árnason, íbúi við Vatnsstíg í Reykjavík, hljóp um miðborgina …
Leó Árnason, íbúi við Vatnsstíg í Reykjavík, hljóp um miðborgina í nótt. mbl./Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert