Ferðaþjónusta fatlaðra hefur verið mikið á milli tannanna á fólki frá því breytt var um kerfi og nýtt tölvukerfi tekið í notkun í nóvember í Reykjavík.
Frá áramótum hefur nánast allt klúðrast við innleiðinguna á nýja kerfinu sem gat farið úrskeiðis. Fór svo að neyðarstjórn var sett til að taka málið fastari tökum.
Á landsbyggðinni er einnig rekin ferðaþjónusta fyrir fatlaða og hún gengur vel, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Hjá Akureyrarbæ fengust þær upplýsingar að bærinn væri með sama kerfi og var í Reykjavík fyrir breytingu. Þar væri handraðað af fólki í þá fimm bíla sem bærinn ræki. Gert væri ráð fyrir að biðtíminn eftir bílnum væri ekki meira en tvær, stundum þrjár mínútur.