Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, er skotinn í þeirri hugmynd að stofna sérstakt ráðuneyti undir menningarmálin. Þetta segir Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og miðborgarstjóri, en Illugi hélt erindi á málþingi sem Bandalag íslenskra listamanna stóð fyrir í dag.
Yfirskrift þingsins var Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar - Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti? Meðal framsögumanna voru Charlotte Bøving, leikari og leikstjóri, Daði Einarsson, listrænn stjórnandi, Hulda Proppé, sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís, og Þorleifur Arnarson leikstjóri.
„Yfirskrift þingsins speglaði þá staðreynd að skapandi greinar eru stærsti vaxtabroddur íslensk atvinnulífs á Íslandi og í Evrópu, og gott ef ekki heiminum öllum,“ segir Jakob. „Og þess sér kannski ekki alveg stað í umhverfi stjórnsýslunnar ennþá og margir sem eru á þessum akri upplifa menningarmálaráðuneytið svolítið eins og skúffu í skólamálaráðuneytinu, sem þarf svo mikinn tíma og athygli og peninga að hitt verður útundan sem þyrfti mest að hlúa að núna, af því að við erum með vind í seglunum.“
Jakob segir þá hugmynd að þjappa mörgum málum saman í stór ráðuneyti barn síns tíma og bendir á að skapandi greinar heyri í raun undir fimm ráðuneyti; mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, ráðuneyti þjóðmenningar, þ.e. forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið.
„Mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson kom og hélt alveg þrumuræðu, mjög góða, og sagði að í sjálfu sér hugnaðist honum þessi hugmynd alls ekki illa, því hann veit manna best hvað er mikil gróska á þessum akri og hvað hann í raun þarf mikla aðhlynningu og sáningu og vökvun núna, þannig að við getum nýtt tækifærin sem blasa við okkur í svo mörgum geirum hinna skapandi greina,“ segir Jakob.
„Auðvitað getur hann ekki sagt það einn og sér að slíkt verði, en það að sitjandi mennta- og menningarmálaráðherra sé skotinn í hugmyndinni, það eru góðar fréttir fyrir allar þær þúsundir Íslendinga sem starfa á þessum vettvangi, og það er vel á annan tug þúsunda sem starfar á akri hinna skapandi greina,“ bætir hann við.
Jakob segir það gamla mýtu að listamenn séu einhverjar „styrkjaguddur með betlistafi“. Skapandi greinar séu víða stærsta útflutningsvarann, t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir löngu tímabært að hámarka möguleika þeirra hérlendis.
„Það þarf að fækka fundum um hvað á að gera og hvernig á að gera og einbeita kröftunum að því að gera það sem nauðsynlegt er og við blasir. Og það er eitthvað sem hinn vel píanóspilandi og upplýsti mennta- og menningarmálaráðherra sér mætavel; að það er tímabært að gefa þessu meiri fókus, meiri vigt, meiri tíma.“