Útlendingastofnun segir dæmi um að fólk sem lét erlenda staðgöngumóður ala sér barn hafi reynt að leyna því þegar komið var með barnið til Íslands. Þetta kemur fram í Reykjavík vikublaði í dag.
Samkvæmt frétt blaðsins hefur þetta gerst að minnsta kosti tvisvar sinnum á síðustu árum. Þá kemur fram að ýmis dæmi séu um að íslensk pör hafi farið úr landi, t.d. til Indlands, og fengið þarlenda konu til að ganga með barn fyrir sig gegn greiðslu.
Í fréttinni kemur ennfremur fram að samkvæmt lögum teljist konan sem fæðir barnið móðir þess og hlýtur barnið sama ríkisfang og hún. Þegar íslenskt par komi með barnið til landsins þurfi því t.d. að útvega því vegabréf, dvalarleyfi og ríkisborgararétt.
Starfshópur velferðarráðuneytisins um undirbúning frumvarps til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur skilað tillögum sínum að frumvarpi til ráðherra. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er stefnt að því að heilbrigðisráðherra leggi frumvarpið fram fyrir mánaðarmót.
Útlendingastofnun sendi ráðuneytinu umsögn um frumvarpið. Þar segir meðal annars að stofnunin hafi undanfarin ár þurft að takast á við ýmis flókin vandamál sem tengjast slíkri komu barna hingað til lands. Bæði hafi stofnunin fjallað um mál þar sem foreldrar hafi sannarlega tilkynnt að börn hafi fæðst með staðgöngumæðrun „og tilvik þar sem foreldri/ foreldrar reyna að leyna því að um staðgöngumæðrun sé að ræða við öflun framangreindra réttinda“.