Tóku aðgerðarþjarkann í notkun

Heilbrigðisráðherra virðir fyrir sér nýja tækið.
Heilbrigðisráðherra virðir fyrir sér nýja tækið. Ljósmynd/Landspítalinn

Í gær var aðgerðarþjarki formlega tekinn í notkun við hátíðlega athöfn á Landspítalanum. Í pistli Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans, segir að á ferðinni sé fyrsta meiriháttar nýja tæknin sem innleidd er á spítalanum frá aldamótum. 

Aðgerðarþjarki nýtist einkum við nákvæmisaðgerðir þar sem aðgengi er erfitt, sérstaklega við þvagfæraskurðlækningar og við aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna.

„Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg við þetta stóra verkefni undir öruggri stjórn Söfnunarsjóðs um aðgerðaþjarka sem unnið hefur þrekvirki. Stórar og smáar gjafir hafa streymt að af öllu landinu og voru margir gefenda með okkur í dag eða fulltrúar stórra gefendahópa.

Þá er samstarf við heilbrigðisyfirvöld ekki síður mikilvægt en heilbrigðisráðherra hefur frá upphafi stutt verkefnið með ráðum og dáð og tryggt bæði mótframlag ríkisins sem og rekstrarfé. Fyrir vikið getum við nú stolt fullyrt að í þessum efnum erum við komin á sama stað og  systursjúkrahús okkar annars staðar á Norðurlöndunum,“ skrifar Páll.  

Til lítils að hafa tæki ef fólkið er ekki til staðar

„En það væri til lítils að fylla alla króka og kima spítalans með tækjabúnaði á heimsmælikvarða ef ekki væri hæft starfsfólk til að stýra honum. Samhliða því sem Landspítala vex fiskur um hrygg í uppbyggingu aðstöðu og tækjabúnaðar verður vinnustaðurinn eftirsóknarverðari og líklegra að hæfileikaríkt fólk snúi heim. Það er einmitt tilfellið í tilviki aðgerðaþjarkans; um leið og aðrir starfsmenn og hið öfluga teymi sem þjarkanum fylgir getur þróað sig í starfi,“ skrifar Páll. 

„Allt helst þetta í hendur – framúrskarandi og framsýnt starfsfólk, stuðningur og velvild almennings og skilningur og samstarf við heilbrigðisyfirvöld. Þegar allt þetta fer saman þá er ástæða til að fyllast bjartsýni og von um að við náum hinu þrefalda markmiði góðra heilbrigðisstofnana; betri heilsu, betri þjónustu og minni kostnaði.“

Hér má lesa nánar um aðgerðarþjarkann og sjá myndir frá fyrstu aðgerðinni sem gerð var með honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert