Hinn 8. janúar sl. dæmdi héraðsdómur Reykjavíkur Isavia til að greiða fyrrverandi starfsmanni 7 milljónir króna í bætur og 650.000 í málskostnað, en það var niðurstaða dómsins að félagið hefði brotið á starfsmanninum þegar honum var fyrirvaralaust sagt upp störfum.
Maðurinn starfaði sem flugumferðarstjóri en var sagt upp vegna samstarfserfiðleika. Hann var ráðinn til starfa árið 1996, áður en verkefnin sem hann sinnti fluttust yfir til Isavia, en það var niðurstaða dómsins að Isavia hefði borið að veita manninum áminningu og gefa honum tækifæri til að bæta ráð sitt áður en honum var sagt upp, eins og kveðið er á um í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríksins, þar sem upphaflegur ráðningarsamningur var enn í gildi.
Við ákvörðun bóta var m.a. horft til þess að starf flugumferðarstjóra er sérhæft og Isavia eini vinnuveitandinn sem maðurinn á kost á að starfa hjá hérlendis. Þá hafi maðurinn, sem starfaði í Írak þegar málið var fyrir dómi, sótt um fjölda starfa erlendis án árangurs, en það tengist m.a. því að honum hafi ekki tekist að viðhalda réttindum sínum. Í dómnum kemur einnig fram að þá verði ekki hjá því litið að þær ávirðingar sem voru bornar á manninn séu til þess fallnar að gera honum erfiðara fyrir að leita að nýju starfi.
Dómurinn kemst einnig að þeirri niðurstöðu að félagið hafi ekki sinnt athugasemdum starfsmannsins hvað varðaði einelti yfirmanns sem skyldi. Í niðurstöðu dómsins segir m.a.:
„Að mati dómsins var framkoma stefnda gagnvart stefnanda meiðandi og fól í sér ólögmæta meingerð gegn honum. Er í þessu sambandi einnig litið til atvika áður en til uppsagnarinnar kom svo og skorts á eftirfylgni í tengslum við umkvartanir stefnanda.“
Í frétt á vef BSRB segir að dómurinn sé því miður ekki einsdæmi í stuttri sögu Isavia.
„Í desember í fyrra dæmdi Hæstiréttur Isavia til að greiða félagsmanni Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) miskabætur vegna þess hvernig staðið var að uppsögn á ráðningarsamningi við hann. Þá var Isavia einnig dæmt í Hæstarétti í desember árið 2011 til greiðslu bóta vegna ólöglegrar uppsagnar félagsmanns SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu. Sá dómur Hæstaréttar var hafður til hliðsjónar í nýföllnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli félagsmanns FÍF.
BSRB brýnir fyrir forsvarmönnum Isavia að virða kjarasamningsbundinn réttindi starfsmanna sinna. Isavia er opinbert hlutafélag sem er alfarið í eigu ríkisins og eini atvinnurekandi landsins í fjölmörgum sérhæfðum störfum. Í ljósi stöðu sinnar á vinnumarkaði hvílir enn ríkari skylda á félaginu að gæta þess að farið sé að lögum í samskiptum við starfsfólk.“