Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga ekki fyrir brýnustu þörfum en láglaunastefna er grundvallarþáttur í bágum kjörum almennings. Þetta er meðal þess sem kemur fram í álytkunum sem samþykktar voru á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gær.
Í ályktun um baráttu launafólks lýsir fundurinn yfir stuðningi við framkomnar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar.
„Tekjuskipting hefur jafnast lítillega á síðustu árum en sá árangur er í hættu. Rannsóknir sýna að æ færri einstaklingar í samfélaginu sitja að auði og afrakstri þjóðarinnar og misskipting fer hraðvaxandi. Það er ekki fátækt íslensks samfélags sem veldur lágum launum og sárri fátækt þúsunda landsmanna heldur misskipting auðsins. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar miða allar að því að auka þessa misskiptingu, m.a. með afnámi auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og boðuðum aðgerðum um að afnema þrepaskipt skattkerfi,“ segir í ályktuninni.
Í annarri ályktun lýsir flokksráðsfundurinn sig andsnúin einkavæðingu opinberra háskóla, en þar kemur m.a. fram að ekki hafi verið færð nein fagleg rök fyrir sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólanum á Bifröst.
Varðandi rammaáætlun, segist fundurinn vilja vekja athygli á þeim vinnubrögðum Orkustofnunar að vísa 50 virkjanahugmyndum til verkefnisstjórnar um rammaáætlun.
„Orkustofnun er ríkisstofnun og ber að fara að lögum og samþykktum Alþingis. Í staðinn velur hún að gerast erindreki orkugeirans, með því að endurlífga fjölda virkjanahugmynda, sumar gamlar en í nýjum búningi, með nýtt nafn og kennitölu. Óþolandi er að stofnun á vegum ríkisins leyfi sér að vísa gömlum virkjanahugmyndum sem búið er að hafna og færa í verndarflokk rammaáætlunar, í nýtt ferli sem stefnir að virkjun.“
Flokksráðsfundur Vinstri grænna hafnar frekari einkavæðingu og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu og almennt í velferðarkerfinu, samkvæmt ályktun.
„Rétt eins og á bóluárunum fyrir hrun eru allar líkur á að aukin einkavæðing færi tiltölulega litlum hópi auknar tekjur á kostnað almennings og ýti þannig undir enn meiri misskiptingu. Það er ljóst að margir hafa mikinn áhuga á að komast þar í mögulegar matarholur í framhaldi af þeirri einkavæðingu og braski sem átti sér stað fyrir hrun,“ segir m.a. í ályktuninni.
Þá leggst fundurinn eindregið gegn náttúrupassa og vill að skattkerfið verði nýtt til að afla fjár til framkvæmda á ferðamannastöðum. Segir fundurinn náttúrupassann fela í sér markaðsvæðingu náttúrunnar og aðför að almannaréttinum.
Að lokum krefst fundurinn þess að gögn er varða viðræður um TISA-samninginn verði gerð opinber og telur ástæðu til að taka alvarlega til athugunar hvort Ísland eigi að halda áfram í viðræðum um samninginn.
„Á sínum tíma var mjög reynt að auka viðskipti með ýmisskonar almannaþjónustu gegnum GATS-samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Hér virðist sá þráður tekinn upp með það að markmiði að stórauka markaðsvæðingu almannaþjónustunnar þvert á landamæri. Óásættanlegt er að Ísland taki þátt í slíkum viðræðum um grundvallarbreytingu á samfélaginu án þess að um þær fari fram opin og lýðræðisleg umræða þar sem ekkert er dregið undan.“