Umferðaslysið sem varð í Grafarholti við gatnamót Þúsaldar og Reynisvatnsvegar í gær var dæmigert fyrir nokkurn fjölda óhappa sem þar hefur orðið. Til stendur að breyta gatnamótunum en engin beygjuljós eru við þau. Fimm manns voru fluttir á slysadeild eftir slysið. Enginn slasaðist þó alvarlega.
„Þetta er dæmigert tjón þarna. Við höfum lagt til breytingar á stýringu umferðarljósanna úr þriggja í fjögurra fasa. Það er ekkert sérstakt beygjuljós. Þess vegna hafa þessi óhöpp orðið,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um óhappið sem átti sér stað um kl. 13 í gær.
Nokkur fjöldi óhappa hefur átt sér stað á gatnamótunum undanfarin ár, þar á meðal alvarlegt slys 4. apríl árið 2013 þar sem 24 ára gömul kona slasaðist alvarlega. Ómar Smári segir að gatnamótin hafi verið til sérstakrar skoðunar undanfarið og stefnt sé að því að breyta þeim. Vinna við þær breytingar sé enn í gangi hjá Reykjavíkurborg og Vegagerðinni sem bera sameiginlega ábyrgð á gatnamótunum.
Vegna þess að ekkert sérstakt beygjuljós er á gatnamótunum segir Ómar Smári það koma fyrir að þeir ökumenn sem ætli að beygja til vinstri á grænu ljósi geri ráð fyrir að rautt sé á þá sem komi á móti.
„Þegar menn eru að aka má aldrei gera ráð fyrir neinu. Maður þarf alltaf að vera fullviss. Það gildi um þessi gatnamót eins og öll að það þarf að fara varlega. Það stendur til að færa þetta til betri vegar þarna og vonandi fækka slysum,“ segir Ómar Smári.
Spurður að því hvort að fjölgun beygjuljósa á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár geti átt sinn þátt í að ökumenn geri ráð fyrir því að geta tekið vinstri beygju á grænu ljósi segir Ómar Smári það mögulegt.
„Það getur verið að fólk sé ekki eins mikið á varðbergi og annars. Sumir sjá bara grænt og beygja og hugsa það ekkert frekar. Það eru mismunandi útgáfur af umferðarljósum á gatnamótum. Það eru ýmist beygjuljós eða ekki beygjuljós. Fólk verður bara að gera ráð fyrir að það séu mismunandi útgáfur
Fyrri frétt mbl.is: Harður árekstur í Grafarholti