Lögreglumenn mega aðeins beita skotvopni gegn manni þegar önnur úrræði eru ekki tiltæk og brýna nauðsyn ber til. Þeir skulu reyna að takmarka þann skaða sem af notkun skotvopnsins hlýst, til dæmis með því að skjóta í fætur viðkomandi.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem þáverandi dómsmálaráðherra setti árið 2009. Leynd hefur hvílt yfir reglunum, en Ólöf Nordal innanríkisráðherra ákvað í dag að birta þær.
Þar kemur meðal annars fram að skotvopni megi aðeins beita gegn manni þegar lögreglumaður verst lífshættulegri árás á sig eða þriðja aðila, til þess að yfirbuga og handtaka afbrotamenn sem teljast hættulegir lífi fólks eða öryggi ríkisins og koma í veg fyrir alvarlegt ofbeldi gegn fólki eða að verulegu tjóni sé valdið á þjóðfélagslega mikilvægum hagsmunum eða stofnunum, rekstri þeirra eða starfsemi.
Í ýtrustu neyð skal lögreglumaður miða á stærsta hluta þess líkamshluta sem honum er sýnilegur. Telji lögreglumaður að því verði við komið og aðstæður leyfa án þess að skapa aukna hættu fyrir hann eða aðra, skal hann reyna að takmarka þann skaða sem af notkun skotvopnsins hlýst svo sem með því að skjóta í fætur viðkomandi, segir einnig í reglunum og er bætt við að hafi skotvopni verið beitt skuli ávallt veita alla hugsanlega aðstoð eftir á.
Í reglunum eru tilgreindar sex gerðir vopna sem lögregla getur beitt, kylfur, úðavopn, gasvopn, hvellvopn, skotvopn og sprengivopn. Strangar reglur gilda um beitingu hverrar gerðar.
Lögreglumaður sem staðist hefur árlegt hæfnispróf skal fá afhent sérstakt skotvopnaskírteini til staðfestingar á því að hann hafi heimild til að nota viðkomandi skotvopn. Í skírteininu skal tilgreina nafn og persónuupplýsingar ásamt upplýsingum um þau skotvopn sem viðkomandi hefur heimild til að nota og gildistíma, að því er segir í reglunum.
Frétt mbl.is: Vopnareglur lögreglunnar birtar