Lægstu laun verði hækkuð og vinnuvikan stytt

Trúnaðarmannaráð SFR telur nauðsynlegt að hækka lægstu laun og millitekjur verulega í næstu kjarasamningum. Næg innistæða er fyrir slíkum hækkunum og munu þær hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið.

Þetta kemur fram í ályktun sem trúnaðarmannaráð samþykkti á fundi sínum í dag. Þá er lögð áhersla á styttingu vinnuvikunnar.

Á fundinum hélt Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, erindi um launaþróun hér á landi og sýndi sláandi niðurstöður um samanburð á launum hér á landi og á hinum Norðurlöndunum, að því er segir á vef SFR.

Í máli hans kom m.a. fram að laun verkafólks og þeirra sem starfa við þjónustustörf eru langtum lægri hér en á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir að tekið hefði verið tillit til verðlags og skatta.

Ályktun trúnaðarmannaráðs er svohljóðandi:

„Trúnaðarmannaráð SFR telur nauðsynlegt að hækka lægstu laun og millitekjur verulega í næstu kjarasamningum. Næg innistæða er fyrir slíkum hækkunum og munu þær hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið. Sporna þarf við aukinni misskiptingu í samfélaginu enda er hún meiri en áður þekktist og veldur hún fátækt. Auka þarf kaupmátt launa þar sem mörg heimili glíma við alvarlegan greiðsluvanda.

Nauðsynlegt er að gefa styttingu vinnuvikunnar aukið vægi í komandi kjarasamningum. Miðað við Norðurlöndin vinna Íslendingar flesta vinnutíma í fullu starfi og leggur trúnaðarmannaráð SFR því áherslu á að tekið verði raunhæf skref í átt að styttingu vinnuviku og þar með fjölskylduvænna vinnuumhverfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert