Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar telur rétt að taka áfengislöggjöfina til heildstæðrar endurskoðunar með hliðsjón af tiltölulega nýrri löggjöf í Svíþjóð.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, „áfengisfrumvarpið“ svokallaða.
„Meirihlutinn telur það ekki vera hlutverk ríkisins að reka verslanir, hvort sem er með áfengi, snyrtivörur, lyf eða annað og myndi leggjast alfarið gegn frekari ríkisvæðingu í verslun. Raunin er sú að ríkisverslun hefur verið að leggjast af, á mörgum sviðum. Einkaaðilar selja hina ýmsu hluti á frjálsum markaði, suma mjög varasama eins og tóbak, lyf og vopn,“ segir í umsögn meirihlutans. Að henni standa þau Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Willum Þór Þórsson, Villhjálmur Bjarnason, með fyrirvara, og Pétur H. Blöndal.