„Nei við erum ekki vínbúð. Og svo sannarlega ekki Vínbúðin,“ segir á vefsvæðinu vinbudin.com en þar hafa áhugamenn um aukið verslunarfrelsi á Íslandi birt upplýsingar um áhrif þess að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis.
Síðunni var komið á fót vegna frumvarps Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um afnám einkaleyfisins. Meðal annars er tekin saman afstaða þingmanna og segir að 24 þingmenn styðji frumvarpið, 20 þingmenn séu því mótfallnir og 20 þingmenn hafi ekki gefið upp afstöðu sína.
Á síðunni er því haldið fram að ekki sé ástæða til ætla að verð á áfengi í stórmörkuðum muni hækka frá því sem það er núna, úrval minnka eða að einokunarsala hafi mikið forvarnargildi.