Um 1.200 manns fóru um Vesturlandið í gærkvöldi í 24 rútum í von um að sjá norðurljós. Ferðirnar voru farnar á vegum Gray Line og hafa aldrei fleiri farið í ferð af þessu tagi á einu kvöldi hjá fyrirtækinu.
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line, segir að þessi mikli fjöldi eigi sér skýringar, allajafna fari heldur færri í ferðirnar. Ekki hafa verið góð skilyrði til norðurljósaferða undanfarna daga og því voru margir farnir að bíða eftir að komast í ferð.
Hann bendir á að ekki sé farið í ferðirnar nema líkur séu á að ljósin sjáist. Ferðamönnunum var ekið um Vesturlandið í gærkvöldi og sá hluti hópsins glitta í norðurljós en aðrir ekki.
„Þegar ekki hefur verið hægt að fara í ferð í nokkra daga er komin mikil pressa,“ segir Þórir en oftast er að ræða um erlenda ferðamenn sem dvelja aðeins á landinu í skamman tíma. Sjái viðskiptavinir ekki norðurljós geta þeir farið í aðra ferð seinna, þeim að kostnaðarlausu.
Verður fólkið ekki fyrir vonbrigðum ef það sér ekki norðurljós í ferðunum?
„Það er svo merkilegt að það hefur þróast með þeim hætti að það er mikill skilningur meðal flestra ferðamanna að við erum að leita að norðurljósunum og það er það sem við erum að selja. Leiðsögumennirnir eru mjög góðir í að fræða ferðamenn um norðurljós og stjörnur. Miðað við þann fjölda, miðað við aðstæður, þá hefur þetta tengið nokkuð vel,“ segir Þórir.