Könnunarsögusafnið á Húsavík, The Exploration Museum, vinnur þessa dagana að dagskrá í tilefni þess að í sumar eru 50 ár frá komu fyrsta hóps Apollo-geimfara til Íslands til æfinga fyrir tunglferðirnar. Meðal þeirra er Harrison Schmitt en hann var síðastur til að stíga niður fæti á tunglið.
Þegar hafa þrír Apollo-geimfarar staðfest komu sína og eru fleiri Apollo-geimfarar að skoða komu til landsins í sumar. Þá verður eini geimfarinn með rætur á Íslandi, Bjarni Tryggvason, með í för í sumar auk sona og barnabarna Neils Armstrongs.
Schmitt er jarðfræðingur að mennt og gegndi stóru hlutverki í þjálfum geimfaranna fyrir ferðirnar til tunglsins, bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Hann hefur sérstaklega óskað eftir að hitta skólabörn á Húsavík og segja frá ferð sinni til tunglsins.
„Þátttaka íslenskra jarðfræðinga í þjálfun tunglfaranna og æfingar þeirra hér á landi er saga sem vert er að varðveita. Við verðum vör við mikinn áhuga á henni, sérstaklega frá bandarískum gestum sem heimsækja safnið. Það er gríðarlega gaman að geta komið með mann sem hefur gengið á tunglinu í heimsókn til skólabarna á Húsavík,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, stofnandi safnsins.
Stefnt er að stækkun The Exploration Museum með viðbyggingu og nýjum sýningarsölum á næstu þremur árum og leitar safnið að fjármögnun, bæði vegna komu geimfaranna í sumar en einnig vegna stækkunar safnsins.