Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað álagningu fasteignagjalda og útsvars fyrir árið 2015 hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins.
Til þess að átta sig á því hvernig fasteignagjöld breytast á milli ára er nauðsynlegt að skoða samhliða breytingar á álagningarhlutfalli sveitarfélaga sem og breytingar á fasteignamati í viðkomandi sveitarfélagi, segir í greiningu ASÍ. Fasteignagjöld hafa hækkað milli ára í meirihluta tilfella en ástæðan er breyting á fasteignamati fremur en hækkuð álagning sveitarfélaganna. Fasteignagjöld samanstanda af fasteignasköttum, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi, lóðaleigu og sorphirðugjöldum. Gjöldin eru í flestum tilfellum innheimt sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati en geta einnig verið innheimt með blöndu af föstu gjaldi og fermetragjaldi. Sorphirðugjöld eru þó ávallt innheimt sem fast gjald eða fjöldi tunna á húsnæði.
Í flestum tilfellum haldast álagningaprósentur óbreyttar en fasteigna- og lóðamat tekur víðast hvar breytingum og raunbreyting á gjöldum er því í flestum tilfellum sökum breytinga á fasteigna- og lóðamati. Vegna ólíks fasteignamats er litið á fleiri en eitt hverfi í stærri sveitarfélögum til að fá betri mynd af raunbreytingunni. Meðal annars kemur í ljós að öll gjöld hækkuðu í Reykjavík vegna töluverðar hækkunar á fasteignamati. Má sjá lækkun hjá Ísafjarðarbæ, vegna lækkunar á fasteignamati sem leiðir til raunlækkunar á fasteignaskatti, lóðaleigu, vatnsgjaldi og holræsagjaldi. Reykjanesbær er eina sveitarfélagið sem hefur hækkað útsvarið og hækkar einnig fasteignaskattinn um 67%.
Öll sveitarfélögin sem skoðuð voru nema eitt eru með sömu útsvarsprósentu og í fyrra. Aðeins Reykjanesbær hækkaði útsvarið á milli ára úr hámarkinu sem er 14,52% í 15,05% en þar var lagt á 3,62% auka álag vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Aðeins Kópavogur, Garðabær, Seltjarnarnes og Vestmannaeyjabær innheimta útsvar undir hámarkinu en lægsta útsvarið er 13,7% í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Álagningarprósenta fasteignaskatts er óbreytt hjá 9 sveitarfélögum af 15. Þrjú sveitarfélög hækka fasteignaskattinn. Mesta hækkunin er hjá Reykjanesbæ um 67%, hjá Sveitarfélaginu Árborg um 9% og Fjarðarbyggð um 7%. Þau sveitarfélög sem lækka álagninguna eru Garðabær um 8%, Seltjarnarnes 5% og Kópavogur 2%.
Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati, hækkar álagður fasteignaskattur í flestum sveitarfélögum, þrátt fyrir að nokkur þeirra lækki álagninguna. Mesta hækkunin er hjá Reykjanesbæ - Keflavík/Njarðvík bæði í sérbýli og fjölbýli um 70%. Fasteignaskatturinn hækkar almennt meira á fjölbýli en sérbýli. En fasteignaskatturinn lækkar hjá Ísafjarðabæ – Eldri byggð um 6% bæði á sérbýli og fjölbýli vegna lækkunar á fasteignamati. Einnig er lækkun á sérbýli í Garðabæ, Seltjarnarnesi og Fljótsdalshéraði - Egilsstöðum.
Líkt og fasteignaskattur er fráveitugjald í flestum tilfellum greitt sem hlutfall af fasteignamati ef frá eru talin Reykjavík, Akranes og nú einnig Akureyri þar sem holræsagjald miðast við fastagjald og fermetragjald. Álagningarprósentan hélst óbreytt hjá 12 sveitarfélögum en hækkar mest á Seltjarnarnesi um 7,7%, en þar á eftir koma Akranes og Reykjavík með 1,3% hækkun.
Sé tekið tillit til þróunar á fasteignamati hækkar fráveitugjaldið hjá 12 sveitarfélögum, aðeins er lækkun á Ísafirði, Fjarðarbyggð - Reyðafirði og á sérbýlum í Fljótsdalshéraði – Egilsstaðir. Þar sem álagt fráveitugjald hækkar í takt við hækkun á fasteignamati, sést mesta hækkunin í fjölbýli á Seltjarnarnesi um 24% og Garðabæ um 11%. En fyrir sérbýli er mest hækkun á Seltjarnarnesi um 11% og hjá Sveitarfélaginu Skagafirði - Sauðárkróki um 9%.
Lóðaleiga er innheimt sem hlutfall af lóðamati. Undantekningin er hjá Kópavogsbæ þar sem lóðaleiga er föst krónutala á fermetra. Hlutfall lóðaleigu er óbreytt milli ára hjá öllum sveitarfélögum.
Þar sem lækkun er á lóðamati hjá Ísafjarðabæ – eldri byggð og hjá Fjarðarbyggð - Reyðafirði lækkar lóðaleigan um 1-6%. Hjá öðrum sveitarfélögum hækkar lóðaleigan á milli ára nema hjá Kópavogsbæ. Mesta hækkunin fyrir sérbýli er í Reykjavík – Laugarneshverfi/Vogar um 12% og hjá Sveitarfélaginu Skagafjörður - Sauðárkróki um 11%. Mesta hækkunin fyrir fjölbýli er á Seltjarnarnesi um 14,2%, í Reykjavík - Miðbær um 12,1% og hjá Garðabæ – Ásar, Grundir, Tún, Fit um 11,7%.
Vatnsgjald er innheimt hjá mörgum sveitarfélögum sem hlutfall af fasteigamati en í Reykjavík, Akureyri, Fljótdalshéraði, Akranesi og í Vestmannaeyjum er innheimt fermetragjald auk fastagjalds sem og rúmmetragjald í Vestmannaeyjum.
Kópavogur, Seltjarnarnes og Fjarðabyggð eru einu sveitarfélögin sem lækka álagningu vatnsgjalds milli ára um 9-10%. Reykjavík, Akranes, Akureyri, Fljótdalshérað og Vestmannaeyjar hækka álagningarprósentuna um 1-5%.
Þegar tekið hefur verið tillit til þróunar á fasteignamati má sjá að lækkun á greiddu vatnsgjaldi var mest hjá Fjarðarbyggð - Reyðarfjörður um 11,5% og hjá Ísafjarðabæ – eldri byggð um 6% og hjá Kópavogsbæ í fjölbýli um 1-1,5% og í sérbýli um 6%. Mesta hækkun á vatnsgjaldi var í fjölbýli hjá Garðabæ um 11% og fyrir sérbýli hjá Sveitarfélaginu Skagafjörður – Sauðárkróki um 9%.
Ólíkt framangreindum gjöldum eru sorphirðu- og sorptengd gjöld innheimt sem föst upphæð á hverja íbúð eða fjölda tunna við hús. Engar verðbreytingar eru á gjaldskrá hjá Reykjanesbæ, Akraneskaupstað, Ísafjarðabæ og Sveitarfélaginu Skagafirði. Öll hin hækka gjaldskrána. Hæstu gjöldin eru greidd í Vestmannaeyjum 51.323 kr. á árinu 2015 en lægstu gjöldin eru greidd í Garðabæ 21.400 kr. og er það 140% verðmunur eða 29.923 kr. Sem dæmi um hækkanir hjá öðrum sveitarfélögum má nefna að mest hækkar Akureyri um 33%, Kópavogur um 11%, Hafnafjörður 9,7% og Seltjarnarnes 9,5%.