Þrátt fyrir að brátt séu níu ár liðin frá því lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum tóku gildi hefur eftirlit með þeim ekki enn verið tryggt. Umboðsmaður barna segir börn berskjölduð fyrir neikvæðum áhrifum myndefnis.
Í bréfi umboðsmanns barna til menntamálaráðherra segir að reglu berist ábendingar sem varði eftirlit með aðgengi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. „Svo virðist sem verulega vanti upp á að eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sé viðunandi.“
Umboðsmaður segir að myndefni í kvikmyndum og tölvuleikjum kunni að hafa mikil og varanleg áhrif á siðferðisþroska barna, sérstaklega þegar það inniheldur ofbeldi, klám, neikvæðar staðalímyndir eða jákvæð viðhorf til hluta og athafna sem teljast skaðleg.
„Í ljósi reynslunnar hefur umboðsmaður barna efasemdir um að heppilegt sé að láta einkaaðila sem eru „ábyrgðaraðilar“ skv. lögum nr. 62/2006 bera ábyrgð á því að aldursmat, merkingar og eftirlit séu í lagi.“
Þá er farið fram á að menntamálaráðherra finni varanlega lausn á málinu sem fyrst. „Það er óásættanlegt að lögum sem sett eru í þeim tilgangi að vernda börn sé ekki fylgt í framkvæmd.“